Gler á grenndarstöðvar
Í Hafnarfirði eru grenndargámar á sjö stöðum. Á öllum stöðunum eru gámar fyrir pappír, plast og gler auk fatagáma frá RKÍ og flöskugáma frá Skátunum á einhverjum þeirra.
Í febrúar hófst söfnun glers á 37 grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Í glergáma geta íbúar skilað hvers konar gleri sem fellur til á heimilum, s.s. sultukrukkum, glerflöskum og öðrum ílátum úr gleri án endurgjalds. Glerið má hvort sem er vera glært eða litað en þarf að vera hreint og ílát tóm. Á næstu árum verða settir glergámar á allar grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og er stefnt að því að innleiðingu verði lokið árið 2019.
Í Hafnarfirði eru grenndargámar á sjö stöðum. Á öllum stöðunum eru gámar fyrir pappír, plast og gler auk fatagáma frá RKÍ og flöskugáma frá Skátunum á einhverjum þeirra. Staðirnir í Hafnarfirði eru eftirfarandi:
- Hólshraun/Fjarðarkaup
- Miðvangur / Samkaup
- Fjarðargata / Fjörður
- Melabraut v/10-11
- Tjarnartorg v/Bónus
- Staðarberg v/10-11
- Sólvangur
Miklir notkunarmöguleikar í gleri
Söfnun á gleri er mikilvægur liður í undirbúningi að gas- og jarðgerðarstöð sem áætlað er að rísi í Álfsnesi árið 2017 en glersöfnun kemur til með að auka gæði þeirrar moltu sem þar verður framleidd. Í dag er gler og steinefni rúmlega 5% af því sem íbúar höfuðborgarsvæðisins setja í gráu heimilistunnurnar eða um 8 kg á hvern íbúa á árinu 2015. Gler nýtist sem fyllingarefni við framkvæmdir og nýtist þá með sama hætti og möl. Þannig má draga úr námugreftri og áhrifum slíkra framkvæmda á umhverfið, auk þess sem dregið er úr kostnaði.