Sögur og ljóð í sundi

Fréttir

Það er hugguleg tilhugsun að liggja í lauginni og lesa. Þessa vikuna liggja frammi í sundlaugum Hafnarfjarðarbæjar ljóð og smásögur eftir nemendur í grunnskólum bæjarins. Ljóðin og sögurnar eru settar upp í laugunum í tilefni af Bóka- og bíóhátíð barnanna sem stendur yfir þessa vikuna í Hafnarfirði.

Það er hugguleg tilhugsun að liggja í lauginni og lesa.
Þessa vikuna liggja frammi í sundlaugum Hafnarfjarðarbæjar ljóð og smásögur
eftir nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar. Ljóðin og sögurnar eru settar upp í laugunum í tilefni af Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði sem nú stendur yfir.

Höfundar myndskreyttra ljóða eru nemendur í 5. bekkjum
grunnskóla Hafnarfjarðar. Ljóðin frumsömdu kynna sjónarmið nemendanna til
sundlauganna, vatnsins og lífsins í laugunum. Smásögurnar sem liggja frammi í
laugunum eru sögur eftir nemendur í 8.-10. bekkjum grunnskólanna. Um er að ræða
sögur sem sendar voru í úrslit í smásagnasamkeppni sem haldin er árlega fyrir
nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar. Áhersla er lögð á að sögurnar séu stuttar
og hnitmiðaðar og í ár hefjast þær allar á annarri hvorri setningunni
„Síðastliðið sumar lenti ég í alveg ótrúlegu máli…“ eða „Hún/hann sat við
gluggann og horfði út á sjóinn…“ Sérskipuð dómnefnd valdi úr sögunum og sagði
almennt séð að sögurnar bæru vott um góða frásagnarhæfileika, væru margvíslegar
að inntaki og sýndu fram á fjölbreytni í efnistökum.

Íbúar og aðrir gestir eru hvattir leita uppi ljóðin og
sögurnar í sundlaugum Hafnarfjarðar, liggja þar í blíðunni og lesa. Barnabókmenntir
í sundlaugum bæjarins eru hluti af Bóka- og bíóhátíð barnanna sem stendur yfir
þessa vikuna í Hafnarfirði. Tilgangur hátíðar er að efla áhuga barna á lestri
og læsi og styður hátíðin við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í
gangi hafa verið síðustu misseri.

Ábendingagátt