Sóltún Heilsusetur – ný nálgun í stuðningi við eldra fólk

Fréttir

Fyrstu þjónustuþegar í Sóltúni Heilsusetri eru mættir í hús en setrið opnaði formlega 1. september síðastliðinn. Sóltún Heilsusetur býður upp á nýja tegund sérhæfðrar þjónustu sem ætlað er að veita eldra fólki endurhæfingu í þverfaglegri teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks. Markmið er að fólk geti dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði og er þjónustan til þess fallin að efla einstaklinginn, virkni hans og getu. 

Sólvangur er miðstöð þjónustu og fyrirbyggjandi stuðnings fyrir eldra fólk

Fyrstu þjónustuþegar í Sóltúni Heilsusetri eru mættir í hús en setrið opnaði formlega 1. september síðastliðinn. Sóltún Heilsusetur býður upp á nýja tegund sérhæfðrar þjónustu sem ætlað er að veita eldra fólki endurhæfingu í þverfaglegri teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks. Markmið er að fólk geti dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði og er þjónustan til þess fallin að efla einstaklinginn, virkni hans og getu. Nýja þjónustan er veitt 3. og 4. hæð í fallegu og endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Hægt verður að taka á móti allt að 39 einstaklingum í einu.

IMG_6399

Einstaklingsmiðuð, heildræn og þverfagleg endurhæfing

Sóltún Heilsusetur tekur á móti einstaklingum 67 ára og eldri sem fengið hafa tilvísun frá Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur og þar með faglegt mat á því að endurhæfingin geti leitt til markverðrar aukningar á færni til sjálfsbjargar og að viðkomandi hafi gagn af meðferðinni. Þjónustan er að fullu niðurgreidd af Sjúkratryggingum en gert er ráð fyrir að hver og einn dvelji á setrinu í 4 vikur og fái markvissa, þverfaglega þjálfun og fræðslu frá fjölbreyttum hópi heilbrigðisstarfsmanna og annarra fagaðila. Endurhæfingin felur í sér fræðslu, viðtöl við sérfræðinga, einstaklings- og hópþjálfun, heilsueflandi þjálfun, virkni og félagsstarf. Þessi nýja þjónusta á að draga úr líkum á heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku, heimaþjónustu eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. ,,Markmið okkar er að útskrifa sterkari og sjálfstæðari einstaklinga sem geta notið betur efri áranna með bættri heilsu“ segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu.

IMG_6452

Sóltún Heilsusetur er samstarfsverkefni Heilbrigðisráðuneytis, Sjúkratrygginga Íslands, Hafnarfjarðarbæjar og Sóltúns öldrunarþjónustu sem hefur rekið Sólvang hjúkrunarheimili í Hafnarfirði og heimaþjónustuna Sóltún Heima þar sem áhersla er lögð á heilsueflingu í heimahúsi.

Sjá eldri frétt: Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi

Ábendingagátt