Sóltún Heilsusetur – nýmæli í öldrunarþjónustu

Fréttir

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. 

Sóltún Heilsusetur opnar 1. september – nýmæli í öldrunarþjónustu

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. Markmiðið er að viðhalda og auka virkni viðkomandi í daglegu lífi og efla þannig getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu.

Tilkynning á vef Stjórnarráðsins 

IMG_4909Samningur um þjónustu Sóltúns Heilsuseturs við Sólvang Í Hafnarfirði hefur verið undirritaður og staðfestur af heilbrigðisráðherra. María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Bryndís Guðbrandsdóttir hjá Sóltúni, Ingibjörg Eyþórsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Sóltúni, Hrönn Ljótsdóttir hjá Sóltúni og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

IMG_4922Aðstaða í Sóltúni Heilsusetri er að verða hin glæsilegasta. Sóltún Heilsusetur verður staðsett á 3. og 4. hæð í gamla Sólvangi. 

„Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

„Við hlökkum mikið til að bjóða nýtt og spennandi þjónustuúrræði í Sóltúni Heilsusetri á Sólvangi. Með fjölþættri heilsueflingu í skammtímadvöl er horft til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín, sjálfstæði og hreysti á efri árum og draga úr þörf þess fyrir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs“, segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu ehf.

„Þessi samningur SÍ og Sóltúns öldrunarþjónustu felur í sér einstaklega spennandi nýsköpun sem mun stuðla að því að aldraðir geti haldið lengur getu sinni og færni til að búa á eigin heimili og seinka þar með þörf þeirra til að flytja á hjúkrunarheimili. Þverfagleg endurhæfing með fyrirbyggjandi áherslum þar sem unnið er með virkni fólksins, næringar- og heilsufarsástand er örugglega lykill að góðum árangri“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Fyrirkomulag þjónustunnar sem samningurinn kveður á um felur í sér ákveðin nýmæli. Byggt verður á einstaklingmiðuðum áætlunum sem fela í sér fræðslu, viðtöl sérfræðinga, einstaklings- og hópþjálfun, heilsueflandi þjálfun og virkni. Miðað er við að þeir sem sæki úrræðið njóti að jafnaði endurhæfingar í fjórar vikur en í ákveðnum tilvikum allt að sex vikur. Veitt verður að lágmarki 5 klukkustunda einstaklingsmeðferð og 20 klukkustunda einstaklingamiðuð hópmeðferð á viku fyrir hvern einstakling. Þjónustan verður veitt alla mánuði ársins, alla daga vikunnar að undanskildum 10 dögum ár hvert í kringum jól og áramót.

Dregið úr þörf fyrir bráðaþjónustu og innlagnir á sjúkrahús

Til að byrja með er gert ráð fyrir að heimahjúkrun og heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu geti vísað fólki í þessa þjónustu. Þetta er nýmæli og talið líklegt til að draga úr þörf fyrir heimsóknir á bráðamóttöku. Þá er einnig horft til þess að með því endurhæfingar- og forvarnarstarfi sem þjónustan felur í sér megi draga úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. Þjónustunni er þannig ætlað að létta álagi af Landspítala, auka stuðning við aðstandendur aldraðra sem oft eru undir miklu álagi og síðast en ekki síst að bæta lífsgæði þeirra sem þjónustunnar njóta og gera þeim betur kleift að búa lengur heima en ella.

Starfsemin hefst 1. september

Sóltún Heilsusetur opnar þjónustu sína á Sólvangi þann 1. september næstkomandi í samræmi við samning Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. og Sjúkratrygginga Íslands sem gildir til loka mars 2025. Um greiðsluþátttöku einstaklinga fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt samningnum fer samkvæmt reglugerð nr. 1112/2006 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða.

Ábendingagátt