Sönghátíð og Gadus Morhua fá styrk úr Friðrikssjóði

Fréttir

Afhending styrkja úr sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur fór fram í Friðriksstofu í tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar mánudaginn 28. nóvember. Sunnudaginn 27. nóvember voru 142 ár frá fæðingu Friðriks Bjarnasonar, organista og tónskálds. Hefð er fyrir því að bæjarstjóri afhendi styrkina á afmælisdegi Friðriks eða sem næst honum og fengu tvö verkefni styrk.

Afhending styrkja úr sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur fór fram í Friðriksstofu í tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar mánudaginn 28. nóvember. Sunnudaginn 27. nóvember voru 142 ár frá fæðingu Friðriks Bjarnasonar, organista og tónskálds, en helsta lag hans við ljóð Guðlaugar Pétursdóttur eiginkonu hans er héraðssöngur Hafnfirðinga: „Þú hýri Hafnarfjörður“. Hefð er fyrir því að bæjarstjóri afhendi styrkina á afmælisdegi Friðriks eða sem næst honum og fengu tvö verkefni styrk í ár; Sönghatíð í Hafnarborg og Gadus Morhua. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Andrés Þór Gunnlaugsson og Helga Loftsdóttir skipa stjórn sjóðsins.

Umfangsmikil kennslustörf og stofnun nokkurra kóra

Árið 1908 gerðist Friðrik kennari við barnaskóla Hafnarfjarðar og kenndi hann fyrst framan af allar greinar en síðar varð söngkennslan hans aðalgrein. Auk umfangsmikilla kennslustarfa stofnaði Friðrik nokkra kóra og þjálfaði þá, meðal annars karlakórinn „Þresti“ sem hann stofnaði 1912 og stjórnaði í 14 ár. Þekktastur var Friðrik fyrir tónsmíðar sínar en einhver þau bestu af lögum hans eru „Fyrr var oft í koti kátt“, „Hafið, bláa hafið“, „Abba labba lá“ og lag hans við þjóðvísuna „Jólasveinar ganga um gólf“ sem flestir kunna. Þau hjón gáfu Hafnarfjarðarbæ svo til allar eigur sínar áður en þau létust. Nótna- og bókasafn þeirra fór í bókasafn Hafnarfjarðar og þar er nú starfrækt sérstök tónlistardeild með nótnabóka- og hljómplötuútlánum og ber deildin nafn Friðriks. Einnig var af gjafafé þeirra stofnaður sjóður til styrktar og eflingar söngmennt í Hafnarfirði.

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut styrk að upphæð kr. 400.000

Sönghátíð í Hafnarborg var stofnuð árið 2017 og fer sjöunda hátíðin fram árið 2023. Sönghátíð býður upp á tónleika og námskeið með það markmið að leiðarljósi að koma list raddarinnar á framfæri. Sönghátíð hefur sannað sig sem virt tónlistarhátíð sem tónlistarmenn sýna áhuga á að koma fram á. Þá hefur hún hlotið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum, góða aðsókn áhorfenda sem flykkjast á tónleika og skapar tækifæri fyrir fjölda atvinnutónlistarmanna. Stofnendur og listrænir stjórnendur hátíðarinnar, söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Javier Jáuregui gítarleikari veittu styrknum viðtöku.

Söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Javier Jáuregui gítarleikari veittu styrknum viðtöku.

Söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Javier Jáuregui gítarleikari veittu styrknum viðtöku.

Gadus Morhua hlaut styrk að upphæð 300.000 kr. fyrir verkefnið „Fjárlög í fínum fötum“.

Björk Níelsdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór og Steinun Arnbjörg Stefánsdóttir barokksellóleikari skipa þjóðlaga-usla-sveitina Gadus Morhua sem er „þekkt fyrir að djöflast í forminu“ eins og Arnar Eggert Thoroddsen komst að orði þegar hann fjallaði um fyrsta geisladisk hópsins. Gadus Morhua hefur hingað til snúið eldri þjóðlögum bæði á réttuna og rönguna og tvinnað þau saman við barokktóna. Sveitin hlýtur styrk til þess að ráðast til atlögu við íslensku fjárlögin, söngvasafn Sigfúsar Einarssonar og Halldórs Jónassonar frá árunum 1915-1916, á tónleikum í Hafnarborg vorið 2023 þar sem eldri borgarar verða sérstaklega boðnir velkomnir. Ingibjörg Lydia Ingvadóttir móðir Eyjólfs Eyjólfssonar meðlims í Gadus Morhua veitti styrknum viðtöku.

Ingibjörg Lydia Ingvadóttir móðir Eyjólfs Eyjólfssonar meðlims í Gadus Morhua veitti styrknum viðtöku.

Ingibjörg Lydia Ingvadóttir móðir Eyjólfs Eyjólfssonar meðlims í Gadus Morhua veitti styrknum viðtöku.

Hafnarfjarðarbær óskar styrkhöfum innilega til hamingju með styrkina!

Ábendingagátt