Söngkeppni Hafnarfjarðar

Fréttir

Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin í vikunni. Keppnin þótti einstaklega hörð í ár enda ótrúlega hæfileikaríkir krakkar í Hafnarfirði. 

 Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin í vikunni en þessi árlega keppni er undankeppni Söngkeppni Samfés sem haldin verður í Laugardalshöll  laugardaginn 5. mars.

Keppnin fór fram í Gaflaraleikhúsinu og var húsið troðfullt og dúndrandi stemning.  Alls tóku 14 atriði þátt í keppninni, tvö atriði frá hverri félagsmiðstöð. Atriði sem höfðu verið valin í undankeppnum sem félagsmiðstöðvarnar héldu fyrr í vetur. Dómarar voru Bjarki Lárusson, Elísabet Ormslev, Eysteinn Eysteinsson og  Margrét Arnardóttir.  Atriðin tvö sem valin voru sem siguratriði og þar með kosnir fulltrúar félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar á Samfés voru Ísold Ylfa Schweitz Jakobsdóttir sem flutti lagið Minning mín / Photograph eftir Ed Sheeran og kemur hún úr Hrauninu. Svo voru það Helena Clausen Heiðmundsdóttir, Hildur Clausen Heiðmundsdóttir og Saga Rún Vilhjálmsdóttir sem sungu lagið Skyskraper eftir Demi Lovato og eru þær úr Mosanum. Kynnar kvöldsins voru þeir Fannar Þór Benediktsson og Jónas Eyjólfur Jónasson.

Dómarar sem og áhorfendur voru allir sammála um að keppnin hafi verið einstaklega hörð í ár enda ótrúlega hæfileikaríkir krakkar í Hafnarfirði. Við óskum keppendum öllum innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að sjá sigurvegarana vera stolt okkar á Samfés í Laugardalshöllinni í mars.

Ábendingagátt