Sorgarfræðsla fyrir starfsfólk leik- og grunnskóla

Fréttir

Sorgarmiðstöðin hefur síðustu vikur og mánuði sótt starfsfólk grunnskóla Hafnarfjarðar heim með fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð barna og ungmenna. Framundan eru heimsóknir til starfsfólks leikskóla. Fulltrúar Sorgarmiðstöðvar miðla í fræðslunni af eigin reynslu og veita starfsfólki ráð og verkfæri sem stuðlað geta að betri líðan bæði hjá börnum í sorg og starfsfólki sem þurfa bæði að takast á við sorgina og styðja syrgjandi. Heimsókn Sorgarmiðstöðvar er til þess fallin að styrkja starfsfólk og ýta undir öryggi þess þegar verkefnið er að styðja nemanda í sorg.

Samfélagsverkefni sem eflir og styður við andlega, líkamlega og félagslega heilsu

Sorgarmiðstöðin hefur síðustu vikur og mánuði sótt starfsfólk grunnskóla Hafnarfjarðar heim með fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð barna og ungmenna. Framundan eru heimsóknir til starfsfólks leikskóla. Fulltrúar Sorgarmiðstöðvar miðla í fræðslunni af eigin reynslu og veita starfsfólki ráð og verkfæri sem stuðlað geta að betri líðan bæði hjá börnum í sorg og starfsfólki sem þurfa bæði að takast á við sorgina og styðja syrgjandi. Heimsókn Sorgarmiðstöðvar er til þess fallin að styrkja starfsfólk og ýta undir öryggi þess þegar verkefnið er að styðja nemanda í sorg.

IMG_4269
Karólína Helga Símonardóttir formaður stjórnar Sorgarmiðstöðvar og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri skrifuðu í gær, miðvikudaginn 11. maí 2022, undir nýjan leigusamning Hafnarfjarðarbæjar við Sorgarmiðstöð. Hafnarfjarðarbær hefur verið mikilvægur stuðningsaðili við samtökin. 

Snýst um að öðlast trú á framtíðina eftir missi

Sorgarfræðslan er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Sorgarmiðstöðvar um viðbrögð í sorg og kannski ekki síður um aðstoð og úrræði sem hægt er að sækja í þegar sorgin knýr dyra. Það kemst enginn í gegnum lífið án þess að kynnast sorginni og getur sorgin tekið á sig ýmsar myndir. Góð og uppbyggjandi sorgarúrvinnsla hefur mikil áhrif á líðan og aðstoðar við að öðlast trú á framtíðina eftir ástvinamissi. Skólasamfélagið í Hafnarfirði er stórt og nær til allra hverfa bæjarins; starfsfólks, nemenda og fjölskyldna. Þetta samfélagsverkefni er liður í heilsueflingu íbúa og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar og þakklætisvottur Sorgarmiðstöðvar fyrir velvild og stuðning bæjarins.

IMG_4282
Hópurinn á bak við Sorgarmiðstöð er öflugur. Hér má sjá framkvæmdastjóra samtakanna og formann stjórnar ásamt starfsfólki og öðrum meðlimum stjórnar við formlega opnuna á nýrri aðstöðu samtakanna á 4. hæð í Lífsgæðasetri St. Jó.  Sorgarmiðstöðin hefur verið með aðstöðu á 2. hæð lífsgæðaseturs frá opnun setursins haustið 2019. Nú eru samtökin komin í stærra húsnæði og geta boðið upp á alla ráðgjöf og þjónustu við syrgjendur í sínu eigin rými.   

Hattur grasrótarfélaga á sviði sorgarúrvinnslu

Sorgarmiðstöðin er öllum opin og hefur það að meginmarkmiði að styðja við syrgjendur og alla þá sem vinna að velferð þeirra. Starfsemin lýtur fyrst og fremst að stuðningi, ráðgjöf, upplýsingaþjónustu og fræðslu. Sorgarmiðstöðin er eitt þeirra rúmlega tuttugu félaga og fyrirtækja sem staðsett eru í Lífsgæðasetri St. Jó og hefur verið frá því að lífsgæðasetrið var opnað árið 2019. Sorgarmiðstöð er samstarfsverkefni Nýrrar dögunar, Ljónshjarta og Gleym mér ei sem öll eru grasrótarfélög á sviði sorgarúrvinnslu. Sorgarúrvinnsla miðar að bættri lýðheilsu með því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi. Sorgarmiðstöð styður fjölda fólks árlega með því að bjóða upp á margskonar þjónustu.

Vefur Sorgarmiðstöðvar í Lífsgæðasetri St. Jó 

Ábendingagátt