Sörur, lagtertur og jólailmur á Brikk á Norðurbakkanum
Brikk á Norðurbakkanum er flaggskip þessa bakaríis enda það stærsta í keðjunni. Jólin lita bakaríð og deilir Oddur Smári Rafnsson með okkur uppskrift að spesíum.
Brikk á Norðurbakkanum
Jólin lita bakaríð Brikk þótt súrdeig og salöt einkenni það sem fyrr. Brikk stendur á Norðurbakkanum.
„Það má segja að staðurinn sé flaggskipið okkar enda sá stærsti,“ segir Oddur Smári Rafnsson, einn af þremur eigendum Brikk. Hinir tveir eru Einar Hjörvar Benediktsson og Davíð Magnússon. Útibúin á Kársnesi og Dalvegi í Kópavogi og það nýjasta á Háteigsvegi í Reykjavík.
„Við fórum af stað með það í huga að búa til lítið sætt bakarí. Síðan urðu viðtökurnar miklu betri en við áttum von á. Við höfum verið í stöðugri uppbyggingu síðan 2017,“ segir Oddur sem ólst upp á Holtinu í Hafnarfirði, af stórri hafnfirskri ætt Sigga Þorláks.
Jólin nálgast og því vert að spyrja hvort þau breyti Brikk? „Já, við bökum smákökur, sörur, jólasnúð og jólaklatta. Og í ár verður lagtertan vegan,“ segir hann og hlakkar til jólavertíðarinnar.
Opnunartími
- Mán – Fös, 08:00 – 16:00
- Lau – Sun, 09:00 – 16:00
Spesíur
Smjör 300 g
Flórsykur 166 g
Egg 2 stk.
Kökuhveiti 470 g
Salt 7 g
Lyftiduft 7 g
Vanilludropar 7 g
Aðferð:
Smjöri og flórsykri þeytt saman þar til það verður ljóst og loftkennt. Eggjunum er bætt við, einu í einu. Næst er restinni af þurrefnum blandað við og blandað rólega saman.
Deigið er mótað í lengjur sem eru ca. 3 cm í þvermál og fryst. Skerið í ca. 1,5 cm þykkar sneiðar og raðið á plötu. Bakið við 180° á blæstri í 20 mínútur.
Gott er að dýfa kökunum í súkkulaði til hálfs og skreyta með hnetum.
Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:
Nálgast má jólablaðið á öllum okkar söfnum og sundlaugum? Líka í þjónustuveri.
_____