Hellisgerði

Hellisgerði er almenningsgarður, allur prýddur hrauni. Það er tilvalið að fara þangað með teppi og nesti þegar veðrið er gott og leyfa börnum að skoða sig um og njóta í þessu fallega umhverfi. Á aðventunni er garðurinn klæddur í hátíðarbúning með ljósum og margt um að vera.

Garðurinn

Sögu Hellisgerðis má rekja aftur til miðvikudagsins 15. mars árið 1922. Þá hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs framsögu á fundi hjá Málfundafélaginu Magna er hann nefndi „Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?“ Í framsögunni svaraði hann spurningunni játandi með að koma upp skemmti- eða blómagarði sem yrði Magna til sóma og bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd innan félagsins sem hafði það hlutverk að finna heppilegan stað fyrir garðinn. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hið svokallaða „Hellisgerði“ á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar væri kjörið fyrir garðinn. Þar var vísir að trjálundi en C. Zimsens verslunarstjóri hafði látið girða af svæði í kringum Fjarðarhelli um aldamótin. Haustið 1922 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta félaginu í té hið umbeðna garðstæði endurgjaldslaust. Það skilyrði fylgdi þó samþykkt bæjarstjórnar að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi á sunnudögum á sumrin og að ef eigi yrði búið að girða svæðið af og hefja ræktun þar innan tveggja ára, missti félagið rétt sinn til landsins. Vorið eftir var búið að girða Hellisgerði af og þann 24. júní var haldin þar útiskemmtun sem hafði þann tilgang að afla fjár til starfseminnar og kynna fyrir bæjarbúum. Við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði fyrir hönd bæjarfélagsins og óskaði þeim velfarnaðar í starfinu. Skemmtunin þótti takast svo vel að ákveðið var að halda þar Jónsmessuhátíðir árlega til fjáröflunar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, lúðrablástur, söngur og dvöl í gerðinu sjálfu. Síðasta Jónsmessuhátíðin í Hellisgerði var haldin árið 1960.

Árið 1923 hóf Málfundafélagið Magni markvissa ræktun í Hellisgerði en garðurinn er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Í garðinum mun búa mikill fjöldi álfa og huldufólks. Þar er í dag rekið kaffihús og lítil búð með handverki.

Ábendingagátt