Heillandi Hjartasvell í hjarta Hafnarfjarðar

Frá 15. nóvember til 23. desember 2024 mun Hafnarfjarðarbær í samvinnu við Bæjarbíó starfrækja Hjartasvellið, 200 m² skautasvell fyrir fólk á öllum aldri. Svellið var fyrst opnað á aðventunni 2021 og hafa þúsundir notið saman á skautum í hjarta Hafnarfjarðar síðan þá. Hjartasvellið er staðsett á Ráðhústorgi, fyrir framan Bæjarbíó og Bókasafn Hafnarfjarðar og tengir þannig skemmtilega saman Jólaþorpið í miðbænum og ljósadýrðina í Hellisgerði. Tilvalið er að skella sér á Bókasafn Hafnarfjarðar eftir skautaferðina, ylja sér með bolla og glugga í bók.

Komdu á skauta – fullkomin fjölskyldustund

Hjartasvellið er 100% vistvænt þar sem hvorki vatn né rafmagn er notað til að frysta það. Svellið er byggt á sérhönnuðum gerviísplötum sem hafa sömu eiginleika og venjulegur ís sem býður uppá frábæra afþreyingu, upplifun og hreyfingu fyrir alla fjölskylduna. Skautaferðir eru til sölu á tix.is, innifalin er leiga á skautum og hjálmi. Hver skautaferð er 40 mín og hefst á heila tímanum. Mikilvægt er að mæta tímanlega til að forðast raðir. Hægt er að kaupa allt að átta ferðir á 4.000 kr í sérstökum fjölskyldupakka og reiknast afslátturinn í körfunni sjálfkrafa.

Ábendingagátt