Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og umhverfi er eitt það fallegasta á höfuðborgarsvæðinu. Margar gönguleiðir eru á svæðinu og öllum er frjálst að veiða í vatninu.

Við Hvaleyrarvatn er kjörið útivistarsvæði og liggur göngustígur umhverfis vatnið auk annarra gönguleiða í nágrenninu. Í Wappinu má finna bæði núvitundargöngu við vatnið og gönguleið frá Stórhöfða að Hvaleyrarvatni.

Hvaleyrarvatn er skammt ofan við Hafnarfjörð í lítilli kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu: Vatnshlíð, Húshöfða og Selhöfða. Vestanvert við vatnið er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli vatns úr kvosinni. Hér höfðu Hvaleyrarbændur í seli fyrr á öldum og sjást tóftir undir Selhöfða sem gætu verið af gömlu seli. Sagan segir að nykurinn í vatninu hafi orðið stúlku í selinu að bana og hafi það þá verið lagt niður.

Árið 1956 var Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar afhent 32 hektara land á Húshöfða norðaustan vatnsins til uppgræðslu. Síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna og unnið þarna mikið og gott starf eins og sjá má í skóginum þeirra, Höfðaskógi. 

Ábendingagátt