
Klaustrið
Í Karmelklaustrinu við Ölduslóð eru pólskar nunnur. Í kapellu klaustursins eru daglegar messur og á aðventunni er þar jólajata sem öllum er velkomið að skoða. Klausturgarðurinn er yndislegur garður sem nunnurnar hafa gert meira og minna sjálfar.
Saga klaustursins
Upphaf klaustursstarfs í Hafnarfirði má rekja til ársins 1929 en árið 1939 komu Karmelsystur frá Hollandi til að stofna nunnuklaustur í Hafnarfirði. Þar sem nú heitir Ölduslóð 13 hafði reglan fengið land undir klaustrið og hafið byggingu þess. Hollensku nunnurnar ráku klaustrið fram til ársins 1983 er þær síðustu yfirgáfu landið. Tæpu ári síðar komu þær pólsku Karmelnunnur sem nú eru í klaustrinu.
Klausturgarðurinn
Í klausturgarðinum er yndislegur garður sem nunnurnar hafa gert meira og minna sjálfar. Í miðjum garðinum er Karmelfjall, en það fjall er í Palestínu og á þessu fjalli hófst búseta einsetumanna sem lifðu samkvæmt skipulagðri reglu sem var upphafið af reglunni eins og hún er í dag. Á 13. öld breiddist Karmelreglan út um alla Evrópu en karmel þýðir garður. Systurnar báru með sér hingað til lands nýjungar í grænmetisræktun og ræktuðu þær grænmetistegundir sem fáir Hafnfirðingar höfðu séð enda var á þeim árum aðallega ræktaðar kartöflur og rófur. Fyrir garðinn fékk Karmelklaustrið heiðurskjöld Snyrtileikans árið 2020.
Daglegt líf
Karmelnunnurnar helga líf sitt trúnni á Jesú Krist. Í kapellu klaustursins eru daglegar messur þar sem allir eru velkomnir. Nunnurnar taka einnig á móti óskum um fyrirbænir. Klaustrið rekur Klausturverslunina þar sem meðal annars er hægt að kaupa skrautskrifuð kerti og kort sem eru sívinsæl í fermingum og brúðkaupum.