Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga listamenn. Stórbrotið landslagið hentar vel til útivistar og náttúruskoðunar.

Helst má nefna sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbergi, sem er eitt stærsta fuglabjarg landsins.

Margar gamlar gönguleiðir liggja frá Krýsuvík og alls staðar blasir kynngikraftur náttúrunnar við augum. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhveri má sjá í Seltúni og hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst, um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Augun eru lítil gígvötn beggja vegna þjóðvegarins.

Ábendingagátt