Stærsta Svansvottunarverkefnið hingað til í Hafnarfirði

Fréttir

Alls 154 íbúðir við Áshamar 12-26 fengu Svansvottun á dögunum. Aldrei hefur stærra verk verið Svansvottað á einu bretti. Hvergi eru fleiri Svansvottaðar íbúðir en í Hafnarfirði.

Sex fjölbýlishús fengu Svansvottun

Hafnarfjörður leiðandi í Svansvottun 

Langstærsta verkefnið sem hefur verið Svansvottað hingað til er í Hafnarfirði.  Byggingarverktakinn Eykt fékk sitt fyrsta Svansleyfi fyrir fjölbýlishús að Áshamri 12-26 í Hafnarfirði á dögunum. Um er að ræða sex fjölbýlishús, samtals um 18.000 m2 og 154 íbúðir. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri óskar þeim til hamingju. „Við erum ákaflega stolt af því að Hafnarfjörður er í fararbroddi þegar kemur að umhverfisvænum byggingum. Þetta snýst ekki bara um hús heldur um betra samfélag fyrir íbúa nú og til framtíðar.“ 

Samkvæmt tölum Umhverfis- og orkustofnunar eru hvergi fleiri íbúðir Svansvottaðar og í Hafnarfirði. Ríflega helmingur allra Svansvottunarverkefna eru einmitt hér í bænum. Hafnarfjarðarbær hefur stutt við þessa þróun að fyrirtæki kjósi að byggja umhverfisvænt með afslætti af lóðum og gatnagerðargjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingarframkvæmdir. 

Mikilvægt fyrir fasteignamarkaðinn

Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdarstjóri Svansins, afhenti viðurkenninguna á dögunum. Haft er eftir henni á vef Svansins að verkefnið sé sérstaklega mikilvægt skref fyrir íslenskan fasteignamarkað.  

„Verkefnið bætir verulega við úrvalið af Svansvottuðum íbúðum,“ segir hún. Nú þegar er fjöldi íbúða kominn á markað, bæði íbúðir sem hafi hlotið vottun en einnig íbúðir sem eru enn í Svansvottunarferli. „Og eru því vonir um að eftirspurn eftir slíkum íbúðum fari vaxandi.“ 

Fjölbýlishúsið að Ásharmi er ekki það eina sem Eykt byggir umhverfisvænt. Byggingarverktakinn kemur einnig að fleiri Svansvottuðum framkvæmdum sem aðalverktaki. Samkvæmt Svaninum  styrkir hann þannig stöðu sína sem einn af leiðandi aðilum í Svansvottuðum byggingum hér á landi. 

Eykt stolt af vottuninni

„Við hjá Eykt erum ótrúlega stolt af því að hafa hlotið okkar fyrstu Svansvottun fyrir fjölbýlishús að Áshamri 12–26 í Hafnarfirði,“ segir Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar. Viðurkenningin marki mikilvægan áfanga í sögu Eyktar og staðfesti leiðarljós þess um að byggja með gæði, heilnæmi og sjálfbærni að leiðarljósi.  

Hann bendir á að Eykt hafi nýlokið úttekt á samþættu stjórnunarkerfi sínu með endurvottun á ISO 9001 gæðastaðlinum. Einnig viðhaldsúttekt á ISO 14001 umhverfismálum og ISO 45001 öryggismálum.  Úttektin hafi verið framkvæmd af fulltrúum frá BSI. 

„Við erum afar þakklát öllu okkar öfluga starfsfólki og samstarfsaðilum sem komu að þessu verkefni. Árangurinn sýnir hverju við getum áorkað saman þegar metnaður og gæði eru höfð að leiðarljósi.“ 

Víðtækar kröfur uppfylltar

Gerðar eru strangar kröfur sem tryggja bæði umhverfisábyrgð og gæði með Svansvottun, meðal annars: 

  • Efnisval þar sem skaðleg efni eru takmörkuð 
  • Rakavarnir sem stuðla að heilnæmu innilofti 
  • Orkunotkun sem skal vera innan ákveðinna marka 
  • Dagsbirtu þar sem gerðar eru kröfur um dagsbirtuhönnun 

Fyrir kaupendur eru Svansvottun íbúða því gæðastimpill, sem staðfestir að byggingin hafi verið hönnuð og byggð með langtímahagsmuni íbúa og umhverfisins að leiðarljósi. 

Svansvottað húsnæði er því ekki aðeins umhverfisvænt val. Það er gæðastimpill fyrir kaupendur sem tryggir að íbúðirnar séu hannaðar með langtímahagsmuni íbúa og umhverfisins í huga. 

Til hamingju Eykt og Hafnfirðingar! 

 

 

Ábendingagátt