Starfsfólk Miðstöðvar vinnu og virkni alltaf reiðubúið

Fréttir

Stór dagur var hjá Miðstöð vinnu og virkni í gær. Þórdís Rúriksdóttir, forstöðumaður Miðstöðvarinnar, segir að þótt dagurinn hafi verið stór vanti alltaf fleiri verkefni. Hún hvetur fyrirtæki og stofnanir að leita til þeirra.

Störf sem skipta máli

Stór dagur var í gær hjá Miðstöð vinnu og virkni. Þau sendust um bæinn þveran og endilangan, á allar stofnanir hans, með jólakörfu og kveðju. Starfstöðvar bæjarins eru hátt í 80 og því var keyrslan þétt þann daginn.

Hvetur fyrirtæki til að nýta þjónustuna

Þórdís Rúriksdóttir, forstöðumaður Miðstöðvarinnar, segir að þótt dagurinn hafi verið stór vanti alltaf fleiri verkefni á borð Miðstöðvarinnar. „Við hvetjum fyrirtæki og stofnanir til að nýta starfskrafta okkar. Við bjóðum góða þjónustu,“ segir hún og að Miðstöðin sé með ýmiss járn í eldinum.

„Við erum til að mynda með umhverfisvaktina fyrir umhverfis- og skipulagssvið. Við förum þrisvar í viku á rúnt um bæinn og hreinsum upp allt umframsorp sem liggur við grenndargáma og förum með í Sorpu. Þetta eru alltaf bílfarmar sem við pikkum upp,“ segir hún.

„Svo pökkum við fyrir Ávaxtabílinn tvisvar sinnum í viku og sendum okkar fólk í Nettó, Húsasmiðjuna og Hagkaup.“

Sameinuð starfsemi í nýju húsi

Miðstöð vinnu og virkni er ný af nálinni í Hafnarfirði. Húsnæði starfseminnar stækkaði um 75% nú í haust. Fjórar deildir voru þá sameinaðar undir merkjum Miðstöðvarinnar. Á sjötta tug sækja starfsemina.

Þórdís hvetur hafnfirsk fyrirtæki, sem og önnur, að hafa samband og nýta þjónustuna. Öll pökkunarverkefni henti þeim til að mynda frábærlega sem og tímabundin gigg. „Við þiggjum allt.“

Núna skoðar Þórdís einnig að útvíkka starfsemina og kaupa prentara til að prenta á fatnað „okkur langar einnig að  framleiða fjölnota jólapoka og tækifærispoka  til að selja.“

Já, það er margt í pípum Miðstöðvarinnar. Ekki hika við að leggja þeim lið og gefa tækifæri til góðra starfa.

Fulltrúar Miðstöðvarinnar á ferðinni fyrir Umhverfisvaktina.

Ábendingagátt