Stefna um komu skemmtiferðaskipa samþykkt

Fréttir

Ný stefna um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði hefur verið samþykkt af bæjarráði. Stefnan gildir til 2035.

Stefna um skemmtiferðaskipin samþykkt

Búist er við því að 13 skemmtiferðaskip komi 31 sinni til Hafnarfjarðar á næsta ári. Farþegafjöldinn er áætlaður 7.486 og áhafnarmeðlimir samtals 4.374. Þetta kemur fram í stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í Hafnarfirði. Skýrslan er unnin af Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins.

Stefnan var lögð fram til afgreiðslu bæjarráðs á síðasta fundi nóvembermánaðar og samþykkt. Stefnan er sett til ársins 2035 og verður endurskoðuð á þriggja ára fresti.

Tækifæri og áskoranir

Áhugavert er að rýna í skýrsluna. Þar segir meðal annars að 2023 hafi verið annasamasta árið með 27 komum skipanna og 10.635 farþegum. Farið er yfir helstu áskoranir í skýrslunni og hvernig tryggja megi að móttaka skemmtiferðaskipa verði í sátt við íbúa. Álagsstýringin sé best þegar eitt skip komi í einu og þau séu af minni gerðinni.

Farið er yfir efnahagsleg áhrif og hvernig megi hámarka efnahagslegan ávinning með áherslu á sterkt þjónustuframboð og lengingu dvalar gesta í bænum. Komur skipanna gefi atvinnutækifæri og arð. Styrkja megi þjónustuframboð og innviði til að tryggja góða móttöku gesta. Nýta þurfi auðlindir á skynsamlegan hátt til að tryggja langtíma ávinning fyrir efnahagslíf og umhverfi.

Skýrslunni er skipt upp í fjögur meginmarkmið: Efnahagsleg, samfélagsleg, umhverfisleg, sem og á  jákvæða upplifun gesta. Farið er yfir þætti sem tryggja góða niðurstöðu og hvernig ná megi þeim.

Já, það er gott að vita hvert skal stíma!

 

Ábendingagátt