Stígar endurnýjaðir við Seltún – skert aðgengi

Tilkynningar

Miðvikudaginn 15. október hefst vinna við að endurnýja stíga við Seltún í Krýsuvík. Hluti stíganna verður því lokaður fyrir aðgengi. Fólk er beðið að sýna aðgát.

Stígarnir endurnýjaðir við Seltún

Miðvikudaginn 15. október hefst vinna við að endurnýja síðustu stígana við Seltún í Krýsuvík. Hluti stíganna verður því lokaður fyrir aðgengi. Vinnuvélar verða á svæðinu og menn við störf. Fólk er beðið að sýna aðgát.

Búist er við að vinna standi yfir í um tvo mánuði en verkið sjálft hófst fyrir fjórum árum. Nú er lokahnykkurinn lagður á verkinu. Við verklok verður búið að endurnýja alla stíga og brýr á svæðinu. Því til viðbótar hefur þjónustan verið efld. Hita og rafmagni hefur verið komið á salerni sem verða nú opin til 1. desember í stað miðs októbermánaðar áður. Salernisaðstaðan er lokuð frá desember til 1. mars.

Ein fegursta náttúruperla landsins

Seltún er í Krýsuvík. Um er að ræða mjög virkt sprengigíga- og borholusvæði. Þar eru gönguleiðir og hafa bæði trjástígar og malarstígar verið endurnýjaðir fyrir fjárhæðina úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða undanfarin ár.

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún heillar marga. Viðhald á stígum og uppbygging gönguleiða á þessum vinsæla ferðamannastað er forgangsatriði Hafnarfjarðarbæjar og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu aðstöðu á svæðinu á næstu árum.

Já, eftir endurgerðina verður svo sannarlega gaman að kíkja á Seltún!

Ábendingagátt