Stílhreint yfirbragð umhverfis

Fréttir

Te & Kaffi þykir góð fyrirmynd fyrirtækja í snyrtimennsku og almennri umgengni. Umhverfismál og ásýnd eru fyrirtækinu mjög hugleikin og bera framleiðslustaður, kaffihús og vörur vott um það stílhreina yfirbragð sem haft er að leiðarljósi í rekstrinum.  Fyrirtækið fékk á dögunum viðurkenningu frá Hafnarfjarðarbæ fyrir snyrtileika.

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi byrjaði sem lítil verslun með kaffi og te árið 1984 og er nú ört stækkandi fyrirtæki með um 200 manns í vinnu við framleiðslu, markaðssetningu og sölu. Fyrirtækið hefur til fjölda ára verið með framleiðslu sína og vöruhús við Stapahraun í Hafnarfirði og ætti öllum þeim sem leið eiga um svæðið að vera nokkuð ljóst að umhverfismál og ásýnd eru fyrirtækinu mjög hugleikin. Þessi hugsun endurspeglast þvert í gegnum fyrirtækið enda bera kaffihús og framleiðsluvörur Te & Kaffi vott um það stílhreina og fallega yfirbragð sem starfsmenn og stjórnendur vilja að haft sé að leiðarljósi í öllum rekstrinum. „Við leggjum áherslu á stílhreint og fallegt yfirbragð í öllum okkar verkefnum, aðgerðum og framkvæmdum. Í umsvifamiklum rekstri okkur þá höfum við lagt ofuráherslu á góða umgengni og flokkun á sorpi og öðrum úrgangi. Iðnaðarhverfum fylgir því miður oft slæm umgengni og hugsunin oft sú að eðli starfseminnar sé einfaldlega þannig að ekki sé hægt að hafa hreint og fínt í kringum sig. Þessu erum við ekki sammála. Allir sem vilja hafa fínt í kringum sig geta haft fínt í kringum sig og það óháð eðli starfseminnar“ segir Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & Kaffi. Fyrirtækið hefur í umhverfisstefnu sinni lagt drög að innleiðingu á ISO 14001 umhverfisstjórnarstaðli á kaffihúsum og í framleiðsludeildum og unnið að sífellt viðameiri flokkun sorps í öllum deildum og kaffihúsum. Eitt verkefna snýr beint að snyrtileika umhverfis reksturs á Stapahrauni þar sem sorpflokkun hefur verið aukin ásamt því að trjám hefur verið plantað og svæði, sem fólk nýtti áður til losunar á rusli og bílhræjum, þökulagt. „Við teljum það samfélagslega skyldu okkar að huga vel að umhverfismálum og viðbrögðin sem við höfum fengið hvetja okkur áfram til enn stærri aðgerða á þessu sviði. Við erum afskaplega stolt af viðurkenningu sem Hafnarfjarðarbær veitti fyrirtækinu á dögunum um snyrtilegt umhverfi á athafnasvæði og fögnum því að eftir framlagi okkar sé tekið.  En verkefnið um hreinsun Stapahrauns lýkur þó ekki nema með sameiginlegu átaki allra þeirra fyrirtækja sem eru með starfssemi í götunni ásamt dyggum stuðningi bæjaryfirvalda“ segir Guðmundur að lokum. 

Viðtal við Guðmund Halldórsson birtist í Fjarðarfréttum fimmtudaginn 15. september 2016.

Snyrtileikinn 2016 – viðurkenningar til fyrirtækja

Fyrirtækin Héðinn, Krónan, Te & kaffi þykja góðar fyrirmyndir fyrirtækja í snyrtimennsku og almennri umgengni. Þau fengu á dögunum viðurkenningu frá Hafnarfjarðarbæ fyrir snyrtileika. Með þessum viðurkenningum vill Hafnarfjarðarbær vekja áhuga almennings á fegrun umhverfis innan bæjarins með því að beina athyglinni að þeim sem til fyrirmyndar teljast og ættu þannig að vera öðrum hvatning til framkvæmda.

Hreinsunaráskorun til fyrirtækja í Hafnarfirði

Dagana 15. – 30. september stendur hafnfirskum fyrirtækjum til boða að skila timbri og járni í þar til gerða gáma á þremur stöðum í Hafnarfirði.  Með þessu vill Hafnarfjarðarbær færa þjónustuna nær fyrirtækjunum og hvetja þannig fleiri til þátttöku í því að gera iðnaðarhverfin í Hafnarfirði snyrtilegri. Hrein ásýnd hefur áhrif á upplifun og viðskipti og beint framlag allra fyrirtækja skiptir miklu máli fyrir ásýnd atvinnu- og iðnaðarhverfa í Hafnarfirði.

Sjá kort með staðsetningu gáma hér

Ábendingagátt