Stjórnendur setjast á skólabekk

Fréttir

Leiðtogaskólinn var settur í fyrsta sinn í gær. Stefnt er að því að allir stjórnendur sitji skólann og geri þannig Hafnarfjarðarbæ að enn eftirsóknarverðari vinnustað.

 

Öflug fyrir árangursmiðaða menningu

Fyrstu þrjátíu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar settust á skólabekk í dag 7. október og hófu fyrstir allra nám í Leiðtogaskólanum.

Markmið skólans eru skýr. Þau eru að skapa menningu árangursmiðaðar stjórnunar á vinnustaðnum í samræmi við einkunnarorð Hafnarfjarðarbæjar: hlýleg, áreiðanleg og snjöll þjónusta.

Tilgangurinn er að efla leiðtogahæfni stjórnenda hjá Hafnarfjarðarbæ og hvetja starfsmenn til frekari framþróunar. Auka vitund þeirra um eigin áhrif á þróun vinnustaðarmenningar og árangur sinnar skipulagsheildar. Þeir sitja átta ólíkar 3,5 klukkustunda langar vinnustofur fyrir útskrift. Stefnt er að því að sem allra flestir stjórnendur fari í gengum námið á næstu þremur árum.

Stjórnendur séu valdeflandi

Stjórnendurnir fá meðal annars innsýn í valdeflandi leiðtogaþjálfun, góða stjórnsýslu, hvernig leiðtoginn er hreyfiafl, fjármál, jafnræði og stjórnun.

Skólinn hófst með fyrirlestri Sigríðar Indriðadóttur frá SAGA Competence.  Hún er mannauðsfræðingur og býr yfir áralangri reynslu og víðtækri þekkingu á sviði stjórnunar, mannauðsmála og rekstrar.

Stofnun Leiðtogaskólans er einn liður í því að Hafnarfjarðarbær verði enn eftirsóknarverðari vinnustaður sem samanstendur af öflugu leiðtogateymi og ánægðu starfsfólki í samræmi við mannauðsstefnu Hafnarfjarðarbæjar. Fyrirlesarar koma bæði úr atvinnulífinu og innan Hafnarfjarðarbæjar.

Já, öflugir stjórnendur gera bæinn enn betri.

Ábendingagátt