Rosa-bæjarstóri

Rósa Guðbjartsdóttir

Rósa Guðbjartsdóttir er bæjarstjóri í Hafnarfirði en hún er oddviti Sjálfstæðisflokksins. Rósa tók sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 2006 og var áður formaður bæjarráðs.

Rósa er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og starfaði um árabil við blaða- og fréttamennsku, lengst af sem fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Rósa hefur einnig verið ötull rithöfundur og ritstjóri hjá Bókafélaginu.

Á árunum 2007–2009 var Rósa varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og sat í nokkra mánuði á Alþingi. Hún hefur tekið virkan þátt í störfum innan íþróttahreyfingarinnar og er í fagráði Velferðarsjóðs barna.

Rósa var framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna á árunum 2001–2006 og hefur verið formaður stjórnar félagsins síðastliðin tíu ár.

Rósa er uppalin í Norðurbænum í Hafnarfirði og er stúdent frá Flensborgarskólanum. Hún er gift Jónasi Sigurgeirssyni og eiga þau fjögur börn. Í hlaðvarpsþætti Vitans, segir Rósa frá því hvernig var að alast upp í Hafnarfirði, áhuga hennar á gömlum munum, fyrstu íbúðarkaupin, dvöl hennar í Bandaríkjunum, áhuga á útgáfu, prentun, matargerð og ræktun hvers konar. Komið er inn á erfitt tímabil í sögu fjölskyldunnar vegna barnsmissis og starf hennar að málefnum krabbameinssjúkra barna. Einnig er segir hún frá fjölbreyttum starfsferli sínum í fjölmiðlum, útgáfu og pólitík.

Bæjarstjórar í tímaröð frá 1946

Tímabil Nafn
2018–núverandi Rósa Guðbjartsdóttir
2014–2018 Haraldur L. Haraldsson
2012–2014 Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir
2010–2012 Guðmundur Rúnar Árnason
2002–2010 Lúðvík Geirsson
1998–2002 Magnús Gunnarsson
1995–1998 Ingvar Viktorsson
1986–1993 Guðmundur Árni Stefánsson
1979–1986 Einar Ingi Halldórsson
1966–1979 Kristinn Ó. Guðmundsson
1962–1966 Hafsteinn Baldvinsson
1954–1962 Stefán Gunnlaugsson
1949–1954 Helgi Hannesson
1948–1948 Guðmundur Gissurarson (sat í tvo mánuði)
1946–1948 Eiríkur Pálsson