
Valdimar Víðisson
Valdimar Víðisson er bæjarstjóri í Hafnarfirði en hann er oddviti Framsóknar. Valdimar var kjörinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022 og hefur síðan þá verið formaður bæjarráðs. Bæjarstjóraskiptin eru í samræmi við samkomulag Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022 um að oddviti Sjálfstæðisflokks myndi sitja í stóli bæjarstjóra til 1. janúar 2025 þegar oddviti Framsóknar myndi taka við.
Valdimar er vel kunnur bæjarmálum í Hafnarfirði. Hann sat sem varabæjarfulltrúi Framsóknar í Hafnarfirði kjörtímabilið 2018 til 2022 og var formaður fjölskylduráðs á tímabilinu.
Valdimar er menntaður grunnskólakennari með framhaldsmenntun í stjórnun. Hann var skólastjóri í Grenivíkurskóla í fjögur ár frá árinu 2004. Árið 2008 flutti Valdimar til Hafnarfjarðar, hóf störf sem aðstoðarskólastjóri í Öldutúnsskóla og tók við sem skólastjóri í sama skóla árið 2013.
Valdimar er fæddur 10. september 1978, giftur Sigurborgu Geirdal grunnskólakennara og á einn son Víði Jökul, tvær stjúpdætur þær Lilju Rut og Elísu Rún og tvö barnabörn. Valdimar fæddist á Ísafirði og ólst upp í Bolungarvík til 16 ára aldurs. Þá lá leið Valdimars norður til Akureyrar þar sem hann kláraði bæði menntaskóla og háskóla.
Bæjarstjórar í tímaröð frá 1946
Tímabil | Nafn |
---|---|
2025–núverandi | Valdimar Víðisson |
2018–2024 | Rósa Guðbjartsdóttir |
2014–2018 | Haraldur L. Haraldsson |
2012–2014 | Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir |
2010–2012 | Guðmundur Rúnar Árnason |
2002–2010 | Lúðvík Geirsson |
1998–2002 | Magnús Gunnarsson |
1995–1998 | Ingvar Viktorsson |
1986–1993 | Guðmundur Árni Stefánsson |
1979–1986 | Einar Ingi Halldórsson |
1966–1979 | Kristinn Ó. Guðmundsson |
1962–1966 | Hafsteinn Baldvinsson |
1954–1962 | Stefán Gunnlaugsson |
1949–1954 | Helgi Hannesson |
1948–1948 | Guðmundur Gissurarson (sat í tvo mánuði) |
1946–1948 | Eiríkur Pálsson |