Stoðir styrktar og vörn snúið í sókn

Fréttir

Rekstrarafkoma fyrir A og B hluta Hafnarfjarðar var jákvæð um 2,3 milljarða króna á árinu 2020. Fyrir A hluta var afkoman jákvæð um 1,6 milljarða króna. Þrátt fyrir neikvæð áhrif Covid-19 faraldursins á skatttekjur og útgjöld var grunnrekstur bæjarsjóðs traustur á síðasta ári. Þar við bætist sala á liðlega 15% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum hf. og lóðasölur sem hafa veruleg jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 lagður fram í bæjarráði í dag

Rekstrarafkoma fyrir A og B hluta Hafnarfjarðar var jákvæð
um 2,3 milljarða króna á árinu 2020. Fyrir A hluta var afkoman jákvæð um 1,6
milljarða króna. Þrátt fyrir neikvæð áhrif Covid-19 faraldursins á skatttekjur
og útgjöld var grunnrekstur bæjarsjóðs traustur á síðasta ári. Þar við bætist
sala á liðlega 15% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum hf. og lóðasölur sem hafa
veruleg jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.

„Hafnarfjörður hefur mætt neikvæðum áhrifum Covid-19
faraldursins með því að styrkja efnahagslegar undirstöður sveitarfélagsins,“
segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. „Á undanförnum árum hefur skuldsetning
Hafnarfjarðar farið stöðugt lækkandi og með sölu á um 15% hlut bæjarins í HS
Veitum er svo komið að skuldaviðmið bæjarsjóðs hefur ekki verið lægra í áratugi. Þessi
bætta staða gjörbreytir möguleikum bæjarins til að takast á við efnahagslega óvissu
af völdum Covid-19. Nú er hægt að snúa vörn í sókn. Við höfum getað haldið uppi
öflugri þjónustu við íbúa og markvissri uppbyggingu innviða og stefnum ótrauð á
frekari fjárfestingar í bænum á komandi árum. Umtalsverðum fjölda lóða hefur
verið úthlutað á undanförnum mánuðum, nýjar byggðir eru að rísa og eldri byggð
að þéttast. Því má vænta verulegrar fjölgunar íbúa í Hafnarfirði á komandi
árum, til hagsbótar fyrir rekstur sveitarfélagsins og mannlíf í bænum.“

Hagnaður vegna sölu á hlut í HS Veitum nam tæplega 2,6
milljörðum króna eftir skatta. Tekjufærsla af lóðasölu nam 1,4 milljörðum króna.
Á móti kemur að gjaldfærsla lífeyrissjóðsskuldbindingar var 884 milljónum
krónum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum og fjármagnsliðir voru
451 milljón króna hærri. Veltufé frá rekstri nam 1,6 milljörðum króna eða 5,2%
af heildartekjum.

Skuldavidmid2021

Skuldaviðmið Hafnarfjarðar heldur áfram að lækka milli ára.   

Skuldaviðmið
Hafnarfjarðar hélt áfram að lækka á milli ára. Það var 101% í árslok 2020,
miðað við 112% í árslok 2019, og er því vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt
reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Ný lán
námu 3,8 milljörðum króna en á móti námu greiðslur langtímaskulda alls um 3,2
milljörðum króna.

Fjárfestingar á árinu 2020 námu 3,4 milljörðum króna.
Heildareignir í lok árs námu alls 67 milljörðum króna og jukust um 7,4
milljarða króna á milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 50
milljörðum króna og hækkuðu um 4,7 milljarða króna á milli ára. 

Ársreikningar Hafnarfjarðarbæjar eru aðgengilegir hér 

Ábendingagátt