Stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna

Fréttir

Haustið 2019 verður tekið upp nýtt fyrirkomulag við móttöku grunnskólanemenda af erlendum uppruna í Hafnarfirði sem felst í því að lagt verður stöðumat fyrir grunnskólanemendur af erlendum uppruna þegar þeir hefja skólagöngu í sveitarfélaginu. Stöðumatið er að sænskri fyrirmynd og var þýtt og staðfært með leyfi sænskra skólayfirvalda með milligöngu Menntamálastofnunar. 

Haustið 2019 verður tekið upp nýtt fyrirkomulag við móttöku grunnskólanemenda af erlendum uppruna í Hafnarfirði sem felst í því að lagt verður stöðumat fyrir grunnskólanemendur af erlendum uppruna þegar þeir hefja skólagöngu í sveitarfélaginu. Stöðumatið er að sænskri fyrirmynd og var þýtt og staðfært með leyfi sænskra skólayfirvalda með milligöngu Menntamálastofnunar. 

Hlusta á viðtal við Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur sem stýrir verkefninu fyrir hönd samstarfssveitarfélaganna.

Markmið að styrkja nám, líðan og félagslega stöðu erlendra nemenda í grunnskólum

Markmiðið með stöðumatinu er að afla sem raunhæfastra upplýsinga um námsstöðu erlendra nemenda sem koma til Íslands um leið og þeir hefja skólagöngu hér. Með stöðumatinu er unnt að kanna námslegan bakgrunn og auðvelda þannig kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers nemanda út frá styrkleikum hans og þörfum. Lagt er mat á fyrri þekkingu og reynslu sem og læsi og talnaskilning. Verkefnið gengur m.a. út á að styrkja nám, líðan og félagslega stöðu erlendra nemenda í grunnskólum. Í hverjum grunnskóla verður ákveðinn aðili sem leggur stöðumatið fyrir og hefur fengið þjálfun í því.

Byrjað var að leggja stöðumatið fyrir í einum skóla í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Árborg á vordögum. Skólarnir sem um ræðir eru Lækjarskóli í Hafnarfirði, Háaleitisskóli í Reykjanesbæ og Vallaskóli í Árborg. Reynslan í þessum þremur þátttökuskólum sýnir mikilvægi þess að meta námslega stöðu og þekkingu erlendra nemenda. Nú verður því unnið á því að koma stöðumatinu í sem besta framkvæmd í öllum skólum sveitarfélaganna þriggja.

Stöðumat fyrir leikskóla í þróun

Starfshópur frá sveitarfélögunum Árborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ hefur undanfarin ár unnið að verkefninu með styrk úr Sprotasjóði. Fulltrúar Hafnarfjarðar í starfshópnum eru sérkennslufulltrúi grunnskóla og kennsluráðgjafi fjölmenningar á mennta- og lýðheilsusviði. Sveitarfélögin sem standa að stöðumatinu hafa nú látið þýða svipað stöðumat fyrir leikskóla. Byrjað verður að leggja matið fyrir í vetur og verður Vesturkot þáttökuleikskóli í Hafnarfirði.

Námskeið um innleiðingu á stöðumati

Vegna innleiðingar stöðumatsins var um miðjan september var haldið námskeið í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ fyrir fulltrúa allra grunnskóla í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Árborg. Námskeiðið sóttu einnig aðilar frá Miðju máls og læsis, Menntamálastofnun, KÍ og Fellaskóla, sem komið hafa að verkefninu. Sambærilegt námskeið verður haldið fyrir alla grunnskóla í Reykjavík í október.

Ábendingagátt