Fjárhagsáætlun 2025 samþykkt í bæjarstjórn

Fréttir

Nýr sex deilda leikskóli verður tekinn í notkun í Hamranesi á árinu 2025 sem og nýtt knatthús að Ásvöllum og reiðhöll á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla. Þetta er meðal verkefna sem koma fyrir í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2025. Áherslan er þó sem fyrr á grunnþjónustuna.

Rekstarafgangur og langt í skuldaviðmiðið

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar gerir ráð fyrir 1.010 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta sveitarfélagsins á næsta ári. Áætlunin var samþykkt í bæjarstjórn í gærkvöldi. Þar kemur fram að fjárfest verður fyrir 9,7 milljarða króna. Stefnt er að því að hæsta fjárhæðin fari í fyrirhuguð kaup á knatthúsinu Skessunni í eigu FH.

„Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðarbæjar er góð og við erum stolt af árangrinum sem náðst hefur síðustu ár,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Nýr sex deilda leikskóli verður tekinn í notkun í Hamranesi á árinu 2025 sem og nýtt knatthús að Ásvöllum og reiðhöll á félagssvæði hestamannafélagsins Sörla. Bókasafn í miðbæ og búsetukjarni eru einnig í framkvæmd. Þetta er meðal helstu verkefna sem koma fyrir í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2025. Áherslan er þó sem fyrr á grunnþjónustuna.

Skuldaviðmiðið verði 92,5%

Rekstur A-hluta verður jákvæður um 45 milljónir króna á árinu 2025 samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 5,4% af heildartekjum eða 2.834 milljónir króna. Áætlað er að skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2025 verði 92,5%, sem er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Útsvarsprósenta verður óbreytt á milli ára 14,93%. Álagningarprósenta fasteignaskatta verður jafnframt óbreytt milli ára sem og skattprósenta á atvinnuhúsnæði.

„Það að álagningarprósenta fasteignaskatta verði sú sama milli ára þýðir að þessir skattar lækka að raungildi að meðaltali,“ segir Rósa. „Rekstur sveitarfélaga þyngist með hverju ári, meðal annars vegna þess að sveitarfélög hafa tekið að sér aukna félagslega þjónustu án þess að fjármagn hafi fylgt frá ríkinu. Því horfi ég stolt til árangurs í rekstri Hafnarfjarðarbæjar síðustu ár um leið og ég legg áherslu á að brýnt er að þetta misræmi verði lagað sem fyrst.“

Um 32 þúsund íbúar

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 32 þúsund íbúa. Áætluð heildarútgjöld nema um 47,0 milljörðum króna, áætlaður launakostnaður nemur 25,6 milljörðum króna og áætlaður fjármagnskostnaður 2,4 milljörðum króna.

Helstu tölur úr fjárhagsáætlun 2025
  • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta jákvæð um 1.010 milljónir króna
  • Rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 45 milljón króna
  • Skuldaviðmið áætlað um 92,5% í árslok 2025
  • Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta 2.834 milljónir króna eða 5,4% af heildartekjum
  • Útsvarsprósenta áfram 14,93%
  • Álagningarprósenta fasteignaskatta verður óbreytt milli ára og er gert ráð fyrir að fasteignagjöld muni lækka að raungildi milli ára að meðaltali
  • Gert er ráð fyrir almennri hækkun gjaldskrár um 3,9% til þess að mæta verðlags- og launahækkunum.
  • Áætlaðar fjárfestingar nema tæplega 9,7 milljörðum króna, þar af eru teknir frá fjármunir vegna fyrirhugaðra samninga um kaup á knatthúsinu Skessunni.

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var lögð fram til seinni umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar fimmtudaginn 12. desember 2024. Fjárhagsáætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2026-2028.

Ábendingagátt