Stóra upplestrarkeppnin vex og dafnar – 29 lokahátíðir þetta vorið

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var haldin í Hafnarborg í gær í 23. skipti. Allir grunnskólar Hafnarfjarðar senda fulltrúa til keppninnar, tveir koma frá hverjum skóla og voru keppendur í ár því 14 talsins. Á hátíðinni fluttu nemendur brot úr skáldverki og ljóði og að lokum valdi dómnefnd þrjá bestu upplesarana og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. 

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var haldin í Hafnarborg í gær í 23. skipti. Allir grunnskólar Hafnarfjarðar senda fulltrúa til keppninnar, tveir koma frá hverjum skóla og voru keppendur í ár því 14 talsins. Á hátíðinni fluttu nemendur brot úr skáldverki og ljóði og að lokum valdi dómnefnd þrjá bestu upplesarana og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. Það voru þær Ingunn Lind Pétursdóttir í Hvaleyrarskóla (1. sæti), Katla Stefánsdóttir í Hraunvallaskóla (2. sæti) og Ester Amíra Ægisdóttir í Áslandsskóla (3. sæti) sem hlutu þessar viðurkenningar í ár. Dómnefndina skipuðu þau Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir formaður dómnefndar, Árni Sverrir Bjarnason, Ásta Margrét Eiríksdóttir og Birgir Örn Guðjónsson. Jafnframt voru úrslit kynnt í smásagnasamkeppni 8. – 10. bekkja og verðlaun veitt í samkeppni um verðlaunamynd á boðskorti lokahátíðarinnar. Skáld keppninnar í ár eru þau Ævar Þór Benediktsson og Anna Sigrún Snorradóttir. Afkomendur Önnu Sigrúnar mættu til hátíðarinnar. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Kristín Thoroddsen formaður fræðsluráðs sáu um að veita verðlaun og viðurkenningar.

Hressilegir lúðratónar nemenda í lúðrasveit Víðistaðaskóla tóku á móti gestum við upphaf hátíðar sem sannarlega settu sinn hátíðarblæ á samkomuna. Nemendur frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar stigu líka á stokk. Gítarleikararnir Sóley Anna Arnarsdóttir og Valgerður Bára Baldvinsdóttir sem spiluðu MILONGA eftir T.Tissserand í gítardúett og flautuleikararnir Kolbrún Garðarsdóttir , Kamilla Gísladóttir, Sunneva Þöll Gísladóttir og Hjördís Ylfa Arnarsdóttir sem spiluðu norskan dans nr. 2 op. 35 eftir Edvard Grieg. Talkór nemenda í 4. bekk í Hraunvallaskóla flutti þrjú ljóð; Ungæði eftir Sigurð Pálsson, Allir eiga drauma eftir Ólaf Hauk Símonarson og ORÐ eftir Þórarin Eldjárn. Þessir nemendur ásamt öðrum nemendum í 4. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar hafa í vetur tekið þátt í Litlu upplestrarkeppninni ásamt rúmlega 3000 öðrum nemendum á landinu. Litla upplestrarkeppnin, sem er vaxandi sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni, dafnar vel. Keppnin byggir á sömu hugmyndafræði og sú Stóra en þar lesa nemendur mikið í talkórum og nálgast verkefnið á svolítið annan hátt. Þegar uppi er staðið eru allir þátttakendur í Stóru og Litlu upplestrarkeppnunum sigurvegarar.

Verðlaun í smásagnasamkeppni

Smásagnasamkeppni í 8. – 10. bekkjum grunnskólanna var sett af stað á Degi íslenskrar tungu og gátu nemendur valið á milli þess að skrifa galdrasögu eða sögu sem fjallaði á einhvern hátt um heilbrigði. Dómnefnd fékk í hendur 15 sögur en í dómnefnd sátu þær Ingibjörg Einarsdóttir, Jóhanna Guðríður Ólafsson og Gunnhildur Jónatansdóttir. Í þriðja sæti lentu tvær sögur. Önnur sagan ber nafnið HÁSKAFÖR en hún er galdrasaga og fjallar um systkinin Eldlilju og Fenris. Höfundurinn er Júlía Heiður Guðmundsdóttir og er í 10. bekk í Öldutúnsskóla. Hin sagan sem lenti líka í þriðja sæti heitir Flóki. Hún fjallar um dreng sem fæddist með skarð í vör og er þekktur sem „strákurinn með ljótu vörina“. Sagan þótti einstaklega vel uppbyggð, skrifuð á góðu máli og til þess fallin að vekja upp allskonar tilfinningar lesenda. Höfundur er Andrea Marý Sigurjónsdóttir og er nemandi í Víðistaðaskóla. Annað sæti hlaut sagan SAGAN um HAFSTEIN. Hún fjallar um hjónin Hafstein og Sigrúnu sem voru fátækir kotbændur og höfðu ekki efni á að senda börnin sín í skóla. Höfundur er Urður Vala Guðmundsdóttir og er nemandi í 10.SR í Víðistaðaskóla. Sagan sem lenti í fyrsta sæti heitir GALDRASTEINN og gerist í Nýju-Delí. Sagan snýst um styrk, þrautseigju og þykir mjög vel upp byggð, efnið áhugavert og höfundur með gott vald á málinu. Höfundur er Aníta Ósk Hilmarsdóttir í 10.MJ í Hraunvallaskóla.

Samkeppni um boðskort

Það er fastur liður að efna til samkeppni um boðskort meðal nemenda í sjöttu bekkjum skólanna. Mjög margar skemmtilegar tillögur bárust og átti dómnefnd úr vöndu að ráða en verðlaunamyndin var notuð á boðskort lokahátíðar í ár og prýðir útprentaða dagskrá hátíðar. Á mynd má sjá heilmikinn bókastafla, sennilega sem viðkomandi er búinn að lesa. Listamaðurinn ungi sem átti verðlaunamyndina heitir Þórhildur Kristjónsdóttir og er í 6. bekk í Áslandsskóla.

Um Stóru upplestrarkeppnina

Stóru upplestrarkeppnin á uppruna sinn í Hafnarfirði en fljótlega bættust fleiri bæjarfélög í hópinn og í 19 ár hafa nær allir nemendur í 7. bekk á landinu tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Markmið keppninnar eru ávallt þau sömu, að vanda sig við flutning móðurmálsins, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Keppnin skiptist í tvo hluta, ræktunarhluta sem hefst ávallt á degi íslenskrar tungu í nóvember og hátíðarhluta þar sem fulltrúar skólanna koma saman. Þessir fulltrúar hafa verið valdir á glæsilegum hátíðum í skólunum. Verkefnið er rekið á landsvísu og það er félagið Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem sér um framkvæmdina. 

Ábendingagátt