Stóri læsisdagurinn í leik- og grunnskólum Hafnarfjarðar

Fréttir

Stóri læsisdagurinn fór fram í fyrsta skipti í grunnskólum Hafnarfjarðar í vikunni.

Læsi er lykillinn að fróðleik og þekkingu

Stóri læsisdagurinn fór fram í fyrsta skipti í grunnskólum Hafnarfjarðar í vikunni. Dagskráin var tvískipt og var ráðstefnu fyrir umsjónarkennara í 1.-4. bekk, sérkennara, stuðningsfulltrúa, deildarstjóra yngsta stigs og stoðþjónustu, stjórnendur frístundaheimila og skólastjórnendur grunnskóla Hafnarfjarðar streymt í aðra skóla bæjarins frá fyrirlestrarsal Skarðshlíðarskóla. Farið var yfir niðurstöður úr könnunum á læsisvinnu í grunnskólum Hafnarfjarðar og flutt m.a. erindi um vinnu með orðaforða og eflingu læsis hjá fjöltyngdum nemendum.

Eftir hádegi fór fram fræðsla fyrir kennara á mið- og unglingastigi í beinu streymi frá Hvaleyrarskóla yfir í aðra skóla þar sem Ragnar Þór Pétursson, kennari og formaður KÍ, flutti erindi um gagnrýna texta- og hugmyndagreiningu og Jóhann Björnsson, kennari og heimspekingur, flutti erindi um gagnrýna hugsun. Í hinum skólunum safnaðist starfsfólk saman og fylgdist með ráðstefnunni af stórum skjá. Ráðstefnustjórar voru Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnisstjóri læsis og Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar.

IMG_9849

Starfsfólk Skarðshlíðarskóla fylgdist með ráðstefnunni í fyrirlestrarsalnum en ráðstefnunni var streymt í aðra skóla bæjarins.

 Sambærileg ráðstefna ætluð starfsfólki leikskólanna verður haldin 13. september og verður henni streymt í aðra leikskóla frá fyrirlestrarsal Skarðshlíðarskóla. Í kjölfar ráðstefna verður settur á laggirnar samstarfsvettvangur um læsi, alls sjö hópar kennara og þeim skipt niður eftir hvaða aldri barna þeir kenna. Hóparnir munu funda ca. sex sinnum yfir veturinn og fjalla um mál og læsi út frá aldri viðkomandi nemendahópa.

Lestur er lífsins leikur

Stóri læsisdagurinn er hluti af stóru heildstæðu hafnfirsku verkefni

Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í samfélaginu. Um árabil hefur Hafnarfjarðarbær unnið markvisst eftir skýrri og skilvirkri læsisstefnu sem ber heitir Lestur er lífsins leikur. Um er að ræða stórt samfélagslegt verkefni þar sem leik- og grunnskólar, ásamt foreldrum, heilsugæslu, dagforeldrum og ýmsum stofnunum bæjarins, taka höndum saman um að efla málþroska og læsi barna. Yfirlýst markmið verkefnis er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólagöngu og því lögð sérstök áhersla á að veita öllum nemendum kennslu við hæfi. Bæklingar um mikilvægi lesturs, sem tengjast læsisstefnu Hafnarfjarðar, eru aðgengilegir víða t.d. í leikskólunum, heilsugæslustöðvunum, hjá dagforeldrum, á frístundaheimilunum og á Bókasafni Hafnarfjarðar. Þetta stóra samstarfsverkefni samfélagsins í Hafnarfirði hefur meðal annars skilað sér í aukinni samfellu milli skólastiga og lagt línurnar um mikilvægi læsis sem grunnstoð alls náms.

Ráðstefnustjóri var Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnisstjóri á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar.Ráðstefnustjóri var Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnisstjóri á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar.

Ábendingagátt