Styrkir úr sjóði Friðriks afhentir

Fréttir

Föstudaginn 27. nóvember voru afhentir styrkir úr sjóði Friðriks Bjarnasonar og Guðlaugar Pétursdóttur en þann dag voru 140 ár liðin frá fæðingu Friðriks.

Föstudaginn 27. nóvember voru 140 ár liðin frá fæðingu Friðriks Bjarnasonar, organista og tónskálds en helsta lag/ljóð þeirra Guðlaugar Pétursdóttur eiginkonu hans er héraðssöngur okkar Hafnfirðinga: „Þú hýri Hafnarfjörður“.

Þau hjón gáfu Hafnarfjarðarbæ svo til allar eigur sínar áður en þau létust og af gjafafé þeirra stofnaður sjóður til styrktar og eflingar sönglífi í Hafnarfirði. Á dögunum voru auglýstir styrkir úr sjóðnum og fór afhending styrkjanna fram á fjarfundi föstudaginn 27. nóvember þar sem Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri afhenti styrkina formlega.

Sönghátíð í Hafnarborg hlaut styrk að upphæð kr. 445.000 sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir söngkona veitti viðtöku og Andrés Þór Þorvarðarson hlaut styrk að upphæð 210.000 kr. fyrir verkefninu „…Á nýrri nótunum“ sem snýst um nýútsetningar og flutning á sönglögum Friðriks Bjarnasonar.

Sönghátíð í Hafnarborg var stofnuð árið 2017 og fer fimmta hátíðin fram 24.6.- 4.7.2021. Hún býður upp á tónleika með einsöngvurum, kórum og hljóðfæraleikurum, master class fyrir unga söngvara og söngnemendur sem lýkur með opinberum tónleikum, söngnámskeið fyrir áhugafólk og námskeið fyrir börn og unglinga. Sönghátíð hefur það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri og hefur hlotið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum, góða aðsókn á tónleika og námskeið, mjög jákvæða umfjöllun gagnrýnenda og verulegt áhorf á YouTube .

 

…Á nýrri nótunum: Í samvinnu við Friðriksdeild Bókasafns Hafnarfjarðar mun Andrés Þór velja og útsetja fjögur lög eftir Friðrik Bjarnason sem til eru í safnkosti Friðriksdeildar og verða útsetningar miðaðar að því að vekja athygli á tímaleysi tónsmíða Friðriks og kynna verkin í nýjum búningi til söngs og flutnings. Flutningur fer fram í Friðriksdeild og í aðalhlutverki útsetninganna verður píanó, svo hægt væri að hampa einni stærstu gjöf Friðriks til safnsins: standhörpupíanói. Miðlunardeild Bókasafn Hafnarfjarðar mun fylgja ferlinu og framleiddir stuttir vefþættir um framvindu verkefnisins og stefnt að því að gefa út stutta heimildarmynd um verkefnið.

 

Af nokkrum viðburðum sem höfðu verið undirbúnir af þessu tilefni varð því miður ekki vegna samkomutakmarkana en þennan dag sungu leikskólabörn lag Friðriks við þjóðvísuna „Jólasveinar ganga um gólf“ við tendrun á Cuxhaven-jólatrénu í Jólaþorpinu í Hafnarfirði að viðstöddu fámenni. Þá stóð Hafnarfjarðarkirkja fyrir minningarstund um Friðrik Bjarnason organista og tónskáld sunnudaginn 22. nóvember sem hægt er að nálgast á vef og samfélagsmiðlum kirkjunnar.

Ábendingagátt