Flóttafólk og Norðurlöndin

Fréttir

Undanfarin ár hefur Hvaleyrarskóli verið þátttakandi í fjölbreyttum verkefnum á vegum Nordplus Junior. Nordplus er menntaáætlun Norræna ráðherraráðsins sem veitir styrki til samstarfs innan Norðurlanda og Eystrasaltslanda á öllum stigum menntunar.  Hvaleyrarskóli verður stýristofnun verkefnis í ár.

 

Undanfarin ár hefur Hvaleyrarskóli verið þátttakandi í fjölbreyttum verkefnum á vegum Nordplus Junior. Nordplus er menntaáætlun Norræna ráðherraráðsins sem veitir styrki til samstarfs innan Norðurlanda og Eystrasaltslanda á öllum stigum menntunar. Í ár er skólinn stýristofnun verkefnis sem snýr að málefnum flóttamanna og baráttu við fordóma og kynþáttahatur. Verkefnið hefur m.a. vakið athygli hjá Nordplus styrktarsjóðnum sem dæmi um verkefni í anda menntunaráætlunar þeirra fyrir árin 2017-2022.

Hingað til hefur Hvaleyrarskóli verið samstarfsaðili í þeim metnaðarfullu verkefnum sem tekin hafa verið fyrir en í ár verður skólinn stýristofnun í verkefni og fer með fjármál þess. Styrkupphæðin er 25.420 evrur eða í kringum 3.300.000.- ISK. Verkefnið, sem unnið verður að á skólaárinu, ber vinnuheitið Flygtninge og Norden eða Norðurlöndin og flóttamenn og er samstarfsaðili Gudenaaskolen í Ry í Danmörku.  Grundvöllur verkefnis byggir á því að í dag standa Norðurlöndin frammi fyrir mikilli áskorun varðandi umræðu og stefnu í málefnum flóttamanna og baráttu við fordóma og kynþáttahatur. Saman þá þykja Norðurlöndin hafa sterka rödd í alþjóðasamfélaginu og þurfa lausnir og stefna landanna að byggja á góðu samstarfi borgaralegs samfélags og frumkvæði þegnanna sjálfra. Þingmenn Norðurlandaráðs eru sammála um að auka verði nálgun borgara til þátttöku og áhrifa í sínum heimalöndum og að aukin áhersla sé lögð á tækifæri og lausnir umfram lausnir vandamála. Þetta samstarfsverkefni skólanna snýr því af samfélaginu sjálfu, sameiginlegri framtíð, jafnrétti og borgaralegri þátttöku.

Rafrænt samstarf og skólaheimsóknir

Nemendur vinna að verkefninu rafrænt og í nemendaheimsóknum. Danskir nemendur heimsækja Hvaleyrarskóla í lok september og nemendur 10. MS í Hvaleyrarskóla fara til Danmerkur í lok apríl 2017. Nemendur munu vinna að verkefninu út frá íslensku, dönsku og félagsvísindalegu sjónarhorni.  Þeir vinna saman að greinum og stuttmynd um málefnið sem hefur það að markmiði að auka færni þeirra í samskiptum, skilningi á öðrum menningarheimum og því að geta sett sig í spor annarra til að skilja ástæður og þær áskoranir sem meðal annars flóttafólk stendur frammi fyrir.

 

 

Ábendingagátt