Styrkur til dagsferða með fylgdarlausum ungmennum

Fréttir

Hamarinn og Rauði krossinn Youth Club fengu styrk frá Æskulýðssjóði til að fara í a.m.k 6 dagsferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið með fylgdarlaus ungmenni sem hér eru stödd í leit að hæli, og hóp af hafnfirskum ungmennum.

Hamarinn og Rauði krossinn Youth Club fengu styrk frá Æskulýðssjóði til að fara í a.m.k sex dagsferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið með fylgdarlaus ungmenni sem hér eru stödd í leit að hæli og með hópi af hafnfirskum ungmennum. Verkefnið hefur það að markmiði að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast sín á milli, njóta saman íslenskrar náttúru og valdeflast. Nú þegar er búið að fara fjórar ferðir og hafa þær allar tekist frábærlega.

HamarinnRaudiKrossinYouthClub

Hér má sjá hluta hópsins á Djúpalónssandi í ferð um Snæfellsnesið þar sem hópurinn tók inn krafta Snæfellsjökuls.

Í seinni úthlutun ársins 2020 bárust Æskulýðssjóði alls 19 umsóknir um styrk að upphæð kr. 18.015.000. Mennta og menningarmálaráðuneytið ákvað að tillögu stjórnar Æskulýðssjóðs að styrkja sex verkefni að upphæð 5.505 þúsund. Verkefni Hamarsins og Youth Club hjá Rauða kross Íslands Komum út að leika hlaut kr. 1.000.000 styrk við úthlutunina. Æskulýðssjóður Rannís hefur það hlutverk að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka og auka þannig möguleika þeirra á að bjóða fjölbreyttari starfsemi fyrir félaga sína þ.e. börn og ungmenni á aldrinum 6-25 ára. 

Hamarinn er fyrir allt ungt fólk með alls konar áhugamál

Hamarinn er ungmennahús fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára í gömlu skattstofunni að Suðurgötu 14 sem starfar eftir gildum jafnréttis, vináttu og vellíðunar. Í Hamrinum er mjög góð aðstaða fyrir viðburði og er ungt fólk hvatt til að halda tónleika, myndlistasýningar, stunda hugleiðslu og íhugun eða að spila Dungeons og Dragons langt fram á kvöld í húsnæðinu á þeirra eigin forsendum. Í Hamrinum er alltaf kósý stemning og tilvalið að kíkja í pool, horfa á þætti, tefla, grípa í gítar, spila eða bara vera til og spjalla. Hamarinn er í virku samstarfi við Rauða krossinn og er með skipulagt félagsstarf fyrir ungt fólk á flótta og ungt fólk af erlendu bergi brotnu. Í Hamarinn er allt ungt fólk velkomið og er starfsfólk boðið og búið til aðstoðar með allt það sem liggur ungu fólki Hafnarfjarðar á hjarta, bæði á íslensku og ensku. 

Ábendingagátt