Suðurgata 44 – Nýtt í stíl við það gamla 

Fréttir

Bæjarstjóri skoðaði nýja fjölbýlishúsið að Suðurgötu 44 og segir það fallegt dæmi um þéttingu sem eykur gæði hverfisins og virðir söguna á staðnum. 

Nýtt í stíl við hverfið á Suðurgötu

Glæsileg sýn blasti við bæjarstjóra og bæjarfulltrúum þegar þeir skoðuðu þrettán íbúða fjölbýli sem risið er Suðurgötu, gegnt St. Jósefsspítala. 

Húsið er hannað af Gunnari Páli Kristinssyni, sem leiddi bæjarstjóra um svæðið ásamt fulltrúum fasteignasölunnar Áss og eigenda. Ljóst er að vandað hefur verið til verka. Gunnar hannaði til að mynda mynstrið á álplötunum sem prýða húsið. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri óskaði byggingaraðilum til hamingju. „Þetta er fallegt dæmi um þéttingu sem eykur gæði hverfisins og virðir söguna á staðnum. Hér sést hvað gerist þegar metnaður, góð hönnun og virðing fyrir umhverfinu fara saman,“ sagði hann. 

Íbúðirnar eru tveggja herbergja til fjögurra herbergja þakíbúða. Stærð þeirra er frá 60,6 fermetrum til 171,4 fermetra.  Þær eru bjartar og búnar ítölskum innréttingum. Hver íbúð hefur sitt einkastæði og gefst möguleiki er að kaupa aukastæði. 

„Öll hlutföllin í húsinu eru í ætt við eldri byggðina hér í kring,“ lýsti Gunnar, arkitekt húsins, þegar gengið var um húsakynnin. 

„Þetta er nett fjölbýlishús og markmiðið var að tvinna saman gamla og nýja tíma útlitslega séð á húsunum. Ég vildi ekki endurtaka stílbyggði eldri byggðarinnar heldur gefa húsinu nútímalegt yfirbragð en þó með vísun í gamla tíma þannig að húsið félli vel við eldri byggðina.“  

Hann lýsti hvernig gluggategundir og utanhúsklæðningin vísi í gamla tíma og hvernig klæðningin væri nýtt til að undirstrika að hver íbúð væri sjálfstæð eining.

„Hver byggingarhluti hefur sinn eiginn lit. Þetta er því íbúðaklasi frekar en eitt stórt fjölbýlishús.“ Hann lýsti því hvernig hann hefði hugsað hvern krók og kima hússins og gæði efnisvalsins.  

Valdimar segir bygginguna til marks um hvernig ný hús í gamalli byggð geti smellpassið inn í götumyndina. „Þegar við gerum þetta svona, þá styrkjum við götumyndina og bætum mannlífið í bænum.“ 

Ábendingagátt