Sumarhátíð Vinnuskólans 2025

Fréttir

Hundruð ungmenna komu saman á Víðistaðatúni 10.júlí síðastliðinn á sumarhátíð Vinnuskólans í Hafnarfirði. Ungmennin létu vætusamt veður ekki hafa nein áhrif á hátíðarhöldin og nutu ýmissa útileikja, hressandi tónlistar, gæddu sér á grilluðum pylsum og nutu félagsskaps hvors annars.

Uppskeruhátíð fyrir ungmennin

Hundruð ungmenna komu saman á Víðistaðatúni 10.júlí síðastliðinn á sumarhátíð Vinnuskólans í Hafnarfirði. Ungmennin létu vætusamt veður ekki hafa nein áhrif á hátíðarhöldin og nutu ýmissa útileikja, hressandi tónlistar, gæddu sér á grilluðum pylsum og nutu félagsskaps hvors annars, jafnvel nýrra vinabanda sem mynduðust yfir sumartímann.

Sumarhátíðin er hugsuð sem uppskeruhátíð fyrir ungmennin og þakklæti til þeirra fyrir að hafa hreinsað til og fegrað bæinn okkar í sumar.

Snýst ekki bara um verkefnin heldur líka samveru og félagsleg tengsl

Vinnuskóli Hafnarfjarðar býður ungmennum í Hafnarfirði á aldrinum 14-17 ára upp á skemmtilega og fræðandi sumarvinnu. Vinnuskólinn er hugsaður sem fyrsti vinnustaður ungmenna þar sem þau læra hvernig það er að vera hluti af vinnumarkaðnum í öruggu starfsumhverfi. Vinnuskólinn snýst ekki einungis um verkefnin og vinnuna sjálfa heldur er hann líka hugsaður til að efla ungmennin félagslega, hjálpa þeim að viðhalda rútínu yfir sumartímann og draga úr líkum á einangrun með samveru með jafnöldrum. Vinnudagarnir eru brotnir upp með skemmtun, fræðslu, keppni um best hreinsuðu svæðin og auðvitað sumarhátíðinni þegar líður á sumarið.

Helstu og sýnileg verkefni vinnuskólans

Helstu verkefni ungmenna í vinnuskólanum snúa að götu- og hverfahreinsun, hreinsun leikvalla og skólalóða auk annarra tilfallandi verkefna. Vinnuskólinn starfar undir stefnu skóla án aðgreiningar þar sem reynt er að koma til móts við mismunandi þarfir og áhuga nemenda. Nokkuð er um að ungmenni fari í sérverkefni sem felast meðal annars í aðstoð á íþrótta- og leikjanámskeiðum og stofnunum innan bæjarins. Með vinnu sinni fegrar og bætir starfsfólk vinnuskólans umhverfið um leið og þau þjálfast í vinnubrögðum sem skila sér út í samfélagið til framtíðar.

Miklar þakkir til starfsfólks Vinnuskóla Hafnarfjarðar fyrir vandað framlag ykkar í sumar!

Ábendingagátt