Verkefni sem örva félagsstarf og heilsueflingu fullorðinna

Fréttir

Hafnarfjarðarbær fékk á dögunum 5.640.000.- kr. styrk frá félagsmálaráðuneyti í átaksverkefni yfirvalda sem miðar að því að örva félagsstarf og heilsueflingu fullorðinna. Verður styrkurinn nýttur til að auka og efla félagsstarf og stuðningsþjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði umfram hefðbundið félagsstarf og þjónustu. Lögð er áhersla á framkvæmd þriggja verkefna sumarið 2021.

Heimaþjálfun, námskeið í notkun snjalltækja og hvatning og
fylgd í félagsstarfi

Hafnarfjarðarbær fékk á dögunum 5.640.000.- kr. styrk frá
félagsmálaráðuneyti í átaksverkefni yfirvalda sem miðar að því að örva félagsstarf og heilsueflingu fullorðinna. Verður styrkurinn nýttur til að auka
og efla félagsstarf og stuðningsþjónustu við eldri borgara í Hafnarfirði umfram
hefðbundið félagsstarf og þjónustu. Lögð er áhersla á framkvæmd þriggja verkefna
sumarið 2021 sem miða m.a. að því að ná til þeirra hópa sem eru félagslega
einangraðir, hreyfa sig lítið, hafa ekki alist upp við rafræna þjónustu og eiga
erfitt með að tileinka sér nýja tækni.

Námskeið í notkun snjalltækja
Margir eldri borgarar eru óöruggir í notkun snjalltækja og þar með í rafrænum
samskiptum og umsóknum við m.a. opinberar stofnanir, Heilsuveru, viðskiptabanka
og fleiri. Kunnátta á snjalltæki auðveldar einnig eldri borgurum að vera í
samskiptum við aðstandendur og ástvini og opnar á tækifæri m.a. til verslunar á
netinu, fræðslu og fróðleiks. Boðið verður uppá þrjú tveggja vikna námskeið í
notkun snjalltækja á tímabilinu 1. júní til 9. júlí 2021. Skráning er í síma 555-0142 og í Hraunseli að Flatahrauni 3 sem jafnframt er kennslustaðurinn. 

  • 01.06. – 11.06.2021
  • 14.06. – 25.06.2021
  • 28.06. – 09.07.2021

Heimahreyfing
Margir veikburða eldri borgarar fara lítið út af sínum heimilum, eru bæði
félagslega einangraðir og hreyfa sig lítið. Í gegnum þetta sumarverkefni
Hafnarfjarðarbæjar verður boðið upp á aðlagaða aðstoð starfsmanns við hreyfingu
á heimili viðkomandi, t.d. stólaleikfimi. Æfingarnar eru aðlagaðar að getu og
færni hvers og eins og hafa þann undirliggjandi tilgang að styrkja einstaklingana
og efla lífsgæði þeirra og getu og færni.

Hvatning og fylgd í félagsstarfið
Þónokkrir fullorðnir einstaklingar, sem náð hafa vissum aldri, mikla það
fyrir sér að sækja það öfluga og áhugaverða félagsstarf sem í boði er innan
sveitarfélagsins. Félagsstarf eldri borgara er rekið í Hraunseli Flatahrauni 3
og er starfsemin afar fjölbreytt; billjard, listmálun, handavinna, bingó,
pílukast og spjall svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla er lögð á að ná til þeirra
sem vantar hvatningu til að koma sér af stað og fylgd í félagsstarfið.

Samstarfsaðilar að þessum sumarverkefnunum eru félagsstarf
eldri borgara Hraunseli, Félag eldri borgara Hafnarfirði, ráðgjafar í málefnum
eldri borgara og Hafnarfjarðarbær.

Nánari upplýsingar veita:

  • Sjöfn Guðmundsdóttir, deildarstjóri stuðnings-
    og stoðþjónustu Hafnarfjarðarbæjar, vegna heimahreyfingar og hvatningar og
    fylgdar í félagsstarfið. Netfang: sjofng@hafnarfjordur.is
  • Linda Hildur Leifsdóttir, verkefnastjóri félagsstarfs
    eldri borgara í Hraunseli, vegna námskeiða í notkun snjalltækja. Netfang: lindah@hafnarfjordur.is
Ábendingagátt