Sundhópur styrkir Neistann

Fréttir

Sundgarpar safna og styrkja gott málefni. Fulltrúar sundgarpa í Suðurbæjarlaug afhentu í síðustu viku Neistanum, félagi hjartveikra barna, ágóða söfnunar í þorraveislu.  

Sundhópur í Suðurbæjarlaug hittist nær daglega, syndir saman og á svo gott spjall í heita pottinum. Í upphafi Þorrans hittist hópurinn í þorraveislu og gæddi sér á dýrindis veitingum. Var þetta sjötta árið í röð sem blásið var til slíkrar veislu í sundlauginni á Þorranum. Hver og einn sundgarpur lagði til pening í sjóð í tilefni veislunnar.  Í síðustu viku fóru fulltrúar sundhópsins á fund forsvarsmanna Neistans með ágóðann úr söfnuninni. 

ThorraveislaSudurbaejarlaug2016

Sundgarpar safna og styrkja gott málefni

Í ár var það Neistinn, félag hjartveikra barna, sem fékk ágóða söfnunar í Þorraveislu sundgarpa í Suðurbæjarlaug. Í veislunni söfnuðust kr. 25.000.- og var ágóðinn afhentur forsvarsmönnum Neistans í síðustu viku. Það voru þeir Birgir Dagbjartsson og Ragnar Guðmundsson ásamt Árna Rúnari Árnasyni í Suðurbæjarlaug sem hittu forsvarsmenn Neistans.  

Félagið Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, var stofnað þann 9. maí 1995. Félagið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á velferð hjartveikra barna og fullorðinna með hjartagalla. Í dag eru rúmlega 400 fjölskyldur í félaginu. Neistinn styður fjölskyldur barna og ungmenna með hjartagalla á margvíslegan hátt – félagslega, efnahagslega og tilfinningalega. Neistinn miðlar fræðslu hvers kyns sem lýtur að hjartagöllum og meðferð þeirra t.d. með útgáfu fréttablaðs og upplýsingavef sínum, hjartagáttin.neistinn.is. Félagið heldur úti öflugu félagslífi, fjölskyldum hjartabarna til skemmtunar og stuðnings og unglingastarfið þykir einkar líflegt. Þá stendur Neistinn að baki Styrktarsjóði hjartveikra barna, sem styrkir hjartafjölskyldur fjárhagslega.  Starf Neistans á undanförnum árum hefur verið hjartveikum börnum ómetanlegt. 

Sjá meira um Neistann hér

Ábendingagátt