Sundlaugamenning okkar á skrá UNESCO

Fréttir

Sundlaugamenning Íslands hefur verið formlega skráð sem óáþreifanlegur menningararfur mannkyns hjá UNESCO.

Sundið einstakt á heimsvísu

Sundlaugamenning Íslands hefur verið viðurkennd sem lifandi hefð og er komin á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Hún er, eins og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sagði fyrr í dag,komin í flokk með franska baguette-brauðinu og finnskri saunahefð.

Þessum merku tíðindum var gert hátt undir höfði í Vesturbæjarlaug nú í dag. Þar hittust borgar- og bæjarstjórar ásamt ráðherranum, Grýlu og einum þrettán sona hennar. Gleðin var við völd. Bæjarstjóri Seltjarnarnes sýndi þar til að mynda mynd af álft sem hafði stungið sér til sunds í Seltjarnarneslaug í morgun. Álftin rataði víða í fjölmiðla.

Sundlaugamenning á Íslandi var tilnefnd á skrá UNESCO í mars 2024 yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. 18 mánaða matsferli innan UNESCO tók við í kjölfarið sem lauk formlega með fundi milliríkjanefndar samningsins sem fram fór í Nýju Delí á Indlandi. Þar staðfesti nefndin að sundlaugarmenning Íslands hlýtur þessa æðstu viðurkenningu á sviði lifandi hefða.

Lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf hefur verið lýst sem litlu systur hinnar þekktu heimsminjaskrár. Afar fjölbreytt dæmi um menningararfleifð mannskyns eru á listanum. Þar er að finna yfir 800 skrásetningar frá yfir 150 löndum. Dæmi um skrásetningar á listanum eru einnig kínverskt skuggabrúðuleikhús, belgísk bjórmenning og miðjarðarhafsmataræði.

Við Hafnfirðingar eigum þrjár almenningssundlaugar. Þar er alltaf líf og fjör og já, nú verður enn meira gamað að iðka hafnfirska sundmenningu.

Ábendingagátt