Svenný – Skapandi sumarstörf

Fréttir

Unga tónskáldið og söngvarinn Sveinn Ísak Kristinsson, betur þekktur undir listamannsnafninu, Svenný, hefur spilað heillandi og ljúfa tóna víðsvegar um Hafnarfjörð í sumar á svokölluðum pop-up tónleikum. Svenný spilar á píanó ásamt því að syngja frumsamin lög. Hún hefur haldið stutta tónleika, sem eru hvað oftast í rétt um hálfan klukkutíma, fyrir íbúa og gesti bæjarins í almenningsgörðum, á kaffihúsum, Bókasafni Hafnarfjarðar og hjúkrunarheimilum.

Götulistamaðurinn, Svenný, er hluti af skapandi sumarstörfum hjá Hafnarfjarðarbæ í sumar.

Unga tónskáldið og söngvarinn Sveinn Ísak Kristinsson, betur þekktur undir listamannsnafninu, Svenný, hefur spilað heillandi og ljúfa tóna víðsvegar um Hafnarfjörð í sumar á svokölluðum pop-up tónleikum. Svenný spilar á píanó ásamt því að syngja frumsamin lög. Hún hefur haldið stutta tónleika, sem eru hvað oftast í rétt um hálfan klukkutíma, fyrir íbúa og gesti bæjarins í almenningsgörðum, á kaffihúsum, Bókasafni Hafnarfjarðar og hjúkrunarheimilum.

Sveinn segir listamannsnafnið, Svenný, vera tiltölulega nýtilkomið, en nafnið varð til út frá blöndu af eiginnafni hans og vegferð til sjálfsuppgötvunar þegar kemur að kyni og kynhlutleysi.

Tónlist hefur alltaf spilað stórt hlutverk í lífi Sveins

Lagasmiðurinn hefur verið að semja sína eigin tónlist í rúm fimm ár, en tónlist hefur þó alltaf spilað stórt hlutverk í lífi hans. Sveinn hefur meðal annars spilað á píanó í 10 ár, sungið í kór í grunnskóla og framhaldsskóla, verið flokkstjóri Listahóps Hafnarfjarðar og komið að ýmsum söngleikjum.

Image_6487327-2-

Sköpunarkraftur Svenný leynist svo sannarlega ekki þegar áhorfendur fá að heyra þá miklu ástríðu og dýpt sem fylgir flutningi hans. Enda semur hún eitt lag í hverri viku í allt sumar, ásamt því að frumflytja það fyrir áhorfendur vikulega. Þegar kemur að sköpunarferli nýrra laga, byrjar Svenný á því að leyfa innblæstrinum að koma í gegnum píanóleikinn. Út frá því koma af og til lagatextar sem ýta undir upplifunina, en lögin hennar fá einnig oft að njóta sín með hreinum píanóleik.

Gefur út sitt fyrsta lag í lok sumars

Skapandi sumarstörf hafa opnað margar dyr fyrir þennan unga og hæfileikaríka tónlistarmann, sem við munum eflaust fá að heyra mikið meira frá í náinni framtíð. Í lok sumars mun Svenný gefa út sitt fyrsta lag. Allir áhugasamir munu geta nálgast það á Spotify og öllum helstu streymisveitum. Hægt er að fylgjast með tónsmíðunum bakvið tjöldin, daglegum athöfnum og tónleikum í beinni útsendingu í gegnum Instagram reikning hans og á miðlinum TikTok undir nafninu: @svenny.music. 

Skapandi sumarstörf eru hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar – níu verkefni sumarið 2021

Skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ eru hluti af sumarstarfi Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Skapandi sumarstörf eru auglýst sérstaklega og býðst einstaklingum og hópum að skila inn með umsókn sinni hugmyndum að skapandi verkefnum sem eru til þess fallin að glæða bæinn enn meira lífi yfir sumartímann, gera hann enn skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Valdir hópar fá svo tækifæri til að lífga upp á mannlíf og skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar og gleðja ferðamenn og íbúa með alls kyns uppátækjum. Götutónlist með Svenný er eitt þessara verkefna. Átta önnur skapandi verkefni eru starfrækt hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar í ár og munu þessi verkefni einnig verða kynnt á miðlum bæjarins.

Ábendingagátt