Syndum landsátakið sett í Ásvallarlaug

Fréttir

Hafnfirskir sundgarpar hafa synt lengst í landsátakinu Syndum tvö ár í röð. Átakið var sett í 5. sinn í gær.

Syndum öll saman 

Syndum – landsátak í sundi var sett í fimmta sinn með formlegum hætti í gær mánudaginn 3. nóvember í Ásvallalauginni okkar. Hafnfirskir sundgarpar stungu sér í laugina við þetta tilefni við lófaklapp.

Sundiðkendur í Hafnarfirði hafa verið mjög duglegir að skrá metrana sína í Syndum síðustu ár. Ásvallalaug var með flesta kílómetra synta bæði 2023 og 2024.

„Þetta er í fimmta sinn sem átakið er sett. Í fyrra syntum við 32.171 km. Við ætlum að toppa það í ár. Þetta eru um það bil 24 hringir í kringum landið sem við erum að synda. Stórkostlegt,“ sagði Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, þegar hann setti átakið.

Syndum er heilsu- og hvatningarátak í sundi sem stendur frá 1.- 30. nóvember. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Átakið er styrkt af Evrópuráðinu (European Commission) undir Íþróttaviku Evrópu.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri hélt einnig tölu við setninguna. Hann talaði til krakkanna sem biðu spennt eftir að hefja átakið. Hann sagði sund eina bestu íþrótt sem til er.

„Sund eykur sjálfstraust, styrkir líkama og sál, og gefur fólki á öllum aldri tækifæri til að stunda heilbrigða og góða hreyfingu,“ bendir hann á. Það sé ekki tilviljun að Hafnarfjörður leggi mikið upp úr því að bæta aðstöðu til sundiðkunar.

„Við erum að gefa í. Útisvæði Ásvallalaugar verður stækkað á næstu árum með nýjum laugum og hvíldarsvæðum, og áfram verður unnið að því að gera þessa aðstöðu enn betri bæði fyrir afreksfólk og almenning.“

Hann hvetur Hafnfirðinga til að synda saman, synda fyrir heilsuna og synda fyrir gleðina.

  • Allir skráðir sundmetrar safnast saman og verða sýnilegir á forsíðu www.syndum.is.
Ábendingagátt