Tækniskólaval fyrir 10. bekk

Fréttir

Tæplega 60 nemendur í 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar hófu í gær nám í vali í Tækniskólanum í Hafnarfirði. Valið snýst um að kynna nemendum verklag og vinnubrögð í ólíkum iðnnámsgreinum. Jafnaldrar í Garðabæ sækja líka valið. 

Tæplega 60 nemendur í 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar hófu
í gær (fimmtudag) nám í vali í Tækniskólanum í starfsstöð hans í Hafnarfirði. Valið snýst um að kynna nemendum verklag og vinnubrögð í ólíkum námsgreinum s.s. listum, rafiðn, tréiðn, málmiðn, pípulögnum, upplýsingatækni og tækniteiknun. 

Kynning á verklagi og vinnubrögðum í ólíkum námsgreinum

Valið snýst um að kynna nemendum verklag og vinnubrögð í
ólíkum námsgreinum í Tækniskólanum þar sem nemendur geta valið um þrjár
kynningar í vetur af sjö sem eru í boði: listir, rafiðn, tréiðn, málmiðn,
pípulagnir, upplýsingatækni og tækniteiknun. Valið fer fram með vikulegum tímum
í sex vikur fyrir hverja námsgrein og er þetta fimmta skipti sem slíkt val stendur nemendum til boða. Tækniskólavalið er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarkaupstaðar og
Tækniskólans auk þess sem hafnfirskir nemendur hitta þar fyrir jafnaldra sína frá Garðabæ. Í starfsstöð Tækniskólans á Skólavörðuholti er sambærilegt val í boði fyrir reykvíska nemendur.

Markmið með vali eru margs konar. Nemendur öðlast fyrstu kynni af námi í framhaldsskóla, fá kynningu á verkgreinum og verkgreinanámi og víkka sjóndeildarhring sinn sem getur aðstoðað þá við val á framhaldsskóla í kjölfar grunnskólanáms.  Alls voru það rúmlega 350 nemendur sem hófu nám í 10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar í haust. 

Ábendingagátt