Tækniskóli og Flensborgarskóli fá Gulleplið 2020

Fréttir

Árlega veitir embætti landlæknis verðlaunin Gulleplið fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskólum. Verðlaunin eru veitt þeim skóla sem skarar framúr í fyrirfram ákveðnum þætti og í ár var lögð áhersla á skólatengsl. Með skólatengslum er átt við hvernig skólinn getur stutt við jákvæð skólatengsl nemenda. Tækniskólinn fær Gulleplið 2020 og Flensborgarskóli heiðursverðlaun.  

Tækniskólinn og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði fengu í dag afhentar viðurkenningar Gulleplisins 2020 fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskólum. Tækniskólinn fékk Gulleplið sjálft en Flensborgarskólinn heiðursverðlaun fyrir að hafa unnið ötullega að heilsueflingu innan skólans síðustu tíu árin.  Það er Embætti landlæknis sem veitir viðurkenningarnar. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, var viðstödd viðurkenningahátíðina og fjallaði í ræðu sinni m.a. um mikilvægi forvarna og þá ekki síst mikilvægi þess að taka vel utan um ungmennin í samfélaginu.

Hafnarfjarðarbær óskar Tækniskólanum og Flensborgarskóla innilega til hamingju með þessar verðskulduðu viðurkenningar og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á þessu sviði sem og öllum öðrum. 

Meðfylgjandi er tilkynning frá Embætti landlæknis. Tilkynningu í heild má sjá hér

Gulleplið 2020 – verðlaun fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskólum

Tækniskólinn fær Gulleplið 2020 og Flensborg heiðursverðlaun

Gullepli Embættis landlæknis 2020 var afhent í 10. sinn við hátíðlega athöfn í Tækniskólanum í Hafnarfirði í dag. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin sem Tækniskólinn hlaut að þessu sinni. Það var samdóma álit dómnefndar að Tækniskólinn stæði öðrum framar með nýjum áherslum er lúta að skólatengslum, þ.e. tengslum nemenda við aðra nemendur og starfsfólk skólans. Í ár voru jafnframt veitt sérstök heiðursverðlaun Gulleplisins og varð það Flensborgarskóli sem hlaut þá viðurkenningu fyrir heildræna innleiðingu heilsueflingar og vasklega framgöngu síðustu 10 árin. 

Verðlaunin veitt þeim skóla sem skarar framúr á fyrirfram ákveðnum þætti

Verðlaunin eru veitt þeim sem skóla sem skarar framúr á fyrirfram ákveðnum þætti í skólastarfi sem í ár var skólatengsl. Skólastjóri Tækniskólans, Hildur Ingvarsdóttir, sagði frá aðgerðum skólans til að efla jákvæð skólatengsl og nefndi m.a. starf skólans með hópum sem teljast vera í krefjandi aðstæðum og nálgunum sem ná til allra óháð aldri og staðsetningu. Skólastjórn skólans hefur lagt áherslu á að efla skólatengsl nemenda með markvissum og áhugaverðum nálgunum undanfarin misseri. Tækniskólinn er stærsti framhaldsskóli landsins með tæplega 2.500 nemendur og er starfandi á 8 mismunandi starfsstöðvum.

Heiðursverðlaun fyrir heilsueflingu

Þá voru einnig veitt heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskóla við sömu athöfn. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði hlaut þau verðlaun en skólinn hefur unnið ötullega að heilsueflingu síðastliðin 10 ár og aldrei látið deigan síga. Með áherslu sinni á heilsueflingu hefur skapast heilsueflandi menning í skólanum sem speglast meðal annars í auknu námsframboði tengdu heilsu og vellíðan og góðu utanumhaldi um nemendur. Þá sögðu skólameistari og nemandi Flensborgarskólans frá nýju og áhugaverðu þróunarverkefni innan skólans, Hámarki, þar sem nemendur fá stuðning og fræðslu til að hámarka heilsu sína og vellíðan.

Mikilvægi skólatengsla og geðræktar í skólum

Alma D. Möller, landlæknir, var með ávarp í byrjun athafnar þar sem hún fjallaði um mikilvægi skólatengsla og vísaði í aðgerðaráætlun stjórnvalda um geðrækt í skólum. Þá var einnig greint frá áherslum Gulleplisins 2021 en þá verður lögð áhersla á hvernig framhaldsskólar styðji við félags- og tilfinningafærni nemenda.

Embætti landlæknis óskar Tækniskólanum og Flensborgarskóla innilega til hamingju með verðlaunin og hvetjum þau ásamt öðrum framhaldsskólum áfram til góðra verka.

Ábendingagátt