Takk fyrir frábæran þjóðhátíðardag!

Fréttir

Stemningin og hátíðarbragurinn á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga var með mesta móti í Hafnarfirði í ár. Gleðin réði og við Hafnfirðingar nutum dagsins.

Bærinn blómstraði á 80. ára þjóðhátíðardegi!

Stemningin og hátíðarbragurinn á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga var með mesta móti í Hafnarfirði í ár. Gleðin réði og við Hafnfirðingar nutum dagsins.

„Í dag fögnum við 80 ára afmæli lýðveldisins og minnumst þeirra sem lögðu grunninn að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og frelsi, eitthvað sem alls ekki er sjálfgefið,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri á sviðinu á Thorsplani.

„Við þökkum fyrir baráttu brautryðjendanna og fyrir þau lífsgæði og þá velsæld sem ákvarðanir þeirra hafa haft fyrir okkur Íslendinga. Það þurfti þrautseigju og mikinn baráttuanda til að ná þessu markmiði og það voru sannkölluð gæfuspor fyrir okkur.“

Þétt og þjóðleg dagskrá

Dagskráin var þétt með þjóðlegu ívafi. Skrúðganga frá Flensborgarskóla, bollakökur í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins, þjóðbúningamyndataka við Hafnarborg og víkingahátíðin á Víðistaðatúni gáfu deginum lit. Þá var fjallkonan skautuð og skrýdd í kyrtil á bókasafninu og fengu áhorfendur fræðslu um íslenska búninginn.

Börnin voru að vanda í aðalhlutverki. Þau fengu andlitsmálingu, stoppuðu víða um bæinn og skoppuðu í hoppiköstulum enda hátíðahöldin víða; til að mynda á Thorsplani, Hellisgerði, Sólvangi og Hörðuvöllum.

Blómstrandi gleði í Hafnarfirði

„Hafnarfjörður blómstrar í dag í orðsins fyllstu merkingu,“ sagði bæjarstjórinn og þakkaði starfsfólki sem lagði mikið á sig svo bærinn skini á þessum þjóðhátíðardegi. „Gleðilega þjóðhátíð kæru Hafnfirðingar og gestir, til hamingju með daginn og velkomin hingað á Thorsplan í Hjarta Hafnarfjarðar.“

Já, allt er þetta betra í myndum. Nálgast má myndasýningar á samfélagsmiðlum Hafnarfjarðarbæjar. Njótum saman.

 

 

Ábendingagátt