Takk Halldór Árni!

Fréttir

Síðustu fjóra áratugina hefur útsending og streymi funda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar verið í höndum hins fjölhæfa Halldórs Árna Sveinssonar ritstjóra og eiganda netsamfelags.is. Halldór Árni streymdi sínum síðasta fundi fyrir bæjarstjórn þann 20. desember síðastliðinn.

Sögulegir fundir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Síðustu fjóra áratugina hefur útsending og streymi funda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar verið í höndum hins fjölhæfa Halldórs Árna Sveinssonar ritstjóra og eiganda netsamfelags.is. Halldór Árni streymdi sínum síðasta fundi miðvikudaginn 20. desember síðastliðinn og í dag miðvikudaginn 17. janúar er fyrsti fundur streymis hjá hafnfirska fyrirtækinu RecMedia sem tekið hefur við keflinu. Bæjarstjórnarfundir eru haldnir annan hvern miðvikudag kl. 14 í Hafnarborg.

Þakkir fyrir samstarfið og vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á árinu 2023, sem jafnframt var síðasti fundur Halldórs Árna, voru honum færðar góðar og miklar þakkir fyrir samstarfið, samfylgdina og vel unnin störf síðustu áratugina. Þakkirnar fluttu hvorutveggja Kristinn Andersen, forseti bæjarstjórnar, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri en Halldór Árni hefur setið fleiri fundi en nokkur annar bæjarfulltrúi eða íbúi í Hafnarfirði.

Vegferð Halldórs Árna fyrir Hafnarfjarðarbæ hófst fyrir rétt um 40 árum síðan á 75 ára afmæli bæjarins árið þar sem hann sá um fyrstu hafnfirsku útvarpsútsendinguna og fékk Halldór Árni fjórða leyfið sem veitt var á Íslandi til útvarpsútsendinga eftir að einkaleyfi Ríkisútvarpsins var afnumið. Útsendingin varð kveikjan að því sem síðar varð Útvarp Hafnarfjarðar. Fyrsta útsending bæjarstjórnarfundar var í upphafi árs 1988 þar sem fjárhagsáætlun fyrir starfsárið var samþykkt. Reglubundin útsending bæjarstjórnarfunda í útvarpi hófst ári síðar og er óhætt að segja að þessi aukna miðlun og nýja snerting við bæjarbúa hafi markað tímamót í sögu sveitarfélagsins og var umfjöllun um málefni líðandi stundar með þessu færð nær hafnfirsku samfélagi. Útsendingar í útvarpi áttu sér stað til aldamóta þegar enn frekari þróun og tilraunir með útsendingar í beinu sjónvarpsstreymi frá Hafnarborg hófust fyrir tilstuðlan Halldórs Árna og nemenda hans í fjölmiðladeild Flensborgarskóla.

Heima í Hafnarfirði með Heim í Hafnarfirði

Halldóri Árna er margt til lista lagt og hefur hann með margvíslegum hætti bæði sett sitt mark á bæjarlífið í Hafnarfirði og skjalfestingu þess. Halldór Árni hefur yfirleitt verið fyrsti maður á staðinn við hina ýmsu fagnaði og hátíðarhöld og eftir hann liggur stórt og mikið safn um sögulega atburði Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar í máli og myndum. Halldór Árni er menntaður myndlistarmaður og auglýsingateiknari og hefur hann tekið þátt í samsýningum og haldið fjölda málverkasýninga, nú síðast í apríl 2023 í Litla Galleríi á Strandgötunni. Sú sýning bar yfirskriftina Heim í Hafnarfjörð.

Takk Halldór Árni fyrir óeigingjarnt, ómetanlegt og faglegt framlag þitt til miðlunar og skjalfestingar mannlífs og málefna líðandi stundar í bænum okkar. Umfram allt takk fyrir samstarfið og vináttuna.

Ábendingagátt