Takmarkanir á samkomum rýmkaðar frá 13.janúar

Fréttir

Fjöldatakmarkanir verða 20 manns, heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður gert kleift að hefja starfsemi á ný en með ströngum skilyrðum og skíðasvæðunum sömuleiðis. Íþróttastarf barna og fullorðinna verður heimilað að uppfylltum skilyrðum og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda.

COVID-19: Takmarkanir á samkomum rýmkaðar frá 13. janúar

Sjá tilkynningu á vef Stjórnarráðsins frá 8. janúar 2021

Fjöldatakmarkanir verða 20 manns, heilsu- og líkamsræktarstöðvum verður gert kleift að hefja starfsemi á ný en með ströngum skilyrðum og skíðasvæðunum sömuleiðis. Íþróttastarf barna og fullorðinna verður heimilað að uppfylltum skilyrðum og sömuleiðis íþróttakeppnir án áhorfenda. Fjöldamörk í sviðslistum verða aukin þannig að 50 manns mega vera á sviði og í sal 100 fullorðnir og 100 börn. Sama gildir um aðra menningarviðburði. Þetta er meginefni breyttra reglna um samkomutakmarkanir sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og kynntar voru á fundi ríkisstjórnar í dag. Áformaðar breytingarnar taka gildi 13. janúar og gilda til 17. febrúar næstkomandi.

Sóttvarnalæknir leggur til þessar tilslakanir þar sem vel hafi gengið að sporna gegn útbreiðslu COVID-19 hér á landi. Hann bendir á að víða erlendis sé faraldurinn í mikilli uppsveiflu, meðal annars vegna nýs afbrigðis veirunnar sem til þessa hafi ekki náðst að breiðast út hérlendis. Sóttvarnalæknir setur tillögur sínar því fram með fyrirvara um að þróun faraldursins snúist ekki á verri veg.

Helstu breytingar eru þessar:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
  • Verslanir: Reglur verða óbreyttar frá því sem nú er.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Starfsemi verður heimil með ströngum skilyrðum. Fjöldi gesta má að hámarki vera helmingur þess sem kveðið er á um í starfsleyfi, eða helmingur þess sem búningsaðstaða gerir ráð fyrir ef gestafjölda er ekki getið í starfsleyfi. Einungis er leyfilegt að halda skipulagða hóptíma þar sem hámarksfjöldi í hverjum hópi eru 20 manns og gestir í hvern tíma skráðir. Búningsklefar skulu vera lokaðir. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Sóttvarnalæknir mun setja fram ýtarlegar leiðbeiningar um sóttvarnir á heilsu- og líkamsræktarstöðvum.
  • Íþróttaæfingar: Íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra. Ekki mega vera fleiri en 50 manns í rými.
  • Íþróttakeppnir: Íþróttakeppnir barna og fullorðinna verða heimilar en án áhorfenda.
  • Skíðasvæði: Skíðasvæðum verður heimilt að hafa opið með takmörkunum samkvæmt reglu 4 í útgefnum reglum skíðasvæðanna í landinu. Í skíðalyftum skal tryggt að þeir sem eru einir á ferð þurfi ekki að deila lyftustól með öðrum, halda skal tveggja metra nálægðarmörk og sömu reglur gilda um grímunotkun og annars staðar.
  • Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir: Á sviði mega vera allt að 50 manns á æfingum og sýningum. Andlitsgrímur skulu notaðar eins og kostur er og tveggja metra nálægðartakmörkun virt eftir föngum. Sitjandi gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 og síðar. Gestir skulu sitja í sætum sem skráð eru á nafn og fullorðnir eiga að bera grímu.

Ábendingagátt