Takmörkun á velferðarþjónustu – en óskert eftir föngum

Fréttir

Í ljósi hertra aðgerða stjórnvalda hefur verið tekin ákvörðun um að allri skipulagðri hópastarfsemi í félagsstarfi eldri borgara verði lokað tímabundið. Mötuneyti að Hjallabraut og Sólvangsvegi eru lokuð en hægt að fá mat sendan heim. Þjónusta að Suðurgötu 14 skerðist en önnur regluleg þjónusta fjölskyldu- og barnamálasviðs helst órofin. 

Hertar sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda tóku gildi í gær, laugardaginn 31. október. Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður.

Öllu skipulögðu félagsstarfi eldri borgara lokað tímabundið 

Í ljósi hertra aðgerða stjórnvalda hefur verið tekin ákvörðun um að allri skipulagðri hópastarfsemi í félagsstarfi eldri borgara verði lokað tímabundið. Hraunsel verður þó opið, starfsmenn verða til staðar og hægt að koma þangað í óformlega samveru. Virða þarf öll sóttvarnarfyrirmæli.

Mötuneyti lokuð en hægt að fá mat sendan heim

Mötuneytum að Hjallabraut og á Sólvangsvegi hefur verið lokað og gerðar hafa verið ráðstafanir sem gera fólki kleift að fá mat sendan heim. Sótt er um í síma 585-5500 eða á netfanginu herdish@hafnarfjordur.is

Skert þjónusta að Suðurgötu 14

Óhjákvæmilegt er, vegna þessara hertu aðgerða, að skerða þjónustu á Suðurgötu 14 þar sem til húsa eru Geitungar, atvinnuúrræði fyrir fatlað fólk, Vinaskjól sem er frístundaúrræði fyrir framhaldsskólanema á starfsbraut og Kletturinn, frístundaúrræði fyrir grunnskólabörn. Þessar skerðingar á þjónustu eru óhjákvæmilegar til þess að farið sé að fyrirmælum yfirvalda. Allir hlutaðeigendur verða látnir vita um leið og hægt verður að hefja starfsemi að nýju með óbreyttum hætti.

  • Starfstími Geitunga, sem verið hefur kl. 8-17, verður kl. 8-12
  • Vinaskjól verður opið kl. 13-16 en ekki kl. 12-17 eins og verið hefur.
  • Kletturinn verður opinn kl. 13-16, en ekki til kl. 17 eins og verið hefur.

Öll önnur þjónusta fjölskyldu- og barnamálasviðs helst órofin 

Öll önnur regluleg þjónusta fjölskyldu- og barnamálasviðs helst órofin, þar á meðal heimaþjónusta, stuðningsþjónusta, þjónusta í íbúðakjörnum, á heimilum og í skammtímavistun. Starfsemin í Hæfingarstöðinni að Bæjarhrauni og að Læk verður löguð að hertum aðgerðum.

Rétt er að árétta að heilbrigðisráðherra hefur hvatt til þess að fólk takmarki samskipti og hitti eins fáa og unnt er. Grímuskylda er í þjónustuna sem að ofan greinir, fjarlægðarmörk þarf að virða og mikil áhersla er lögð á hreinlæti og sóttvarnir. Fjölskyldu- og barnamálasviðið vinnur eftir skýrum verkferlum og er í nánu samstarfi við neyðarstjórn sveitarfélagsins og almannavarnir á höfuðborgarsvæðinu.

Ábendingagátt