Taktu þátt í Ratleik Hafnarfjarðar 2021

Fréttir

Í samstarfi við heilsubæinn Hafnarfjörð er hinn vinsæli Ratleikur Hafnarfjarðar nú hafinn í 24. sinn. Leikurinn gengur út á að þátttakendur fá vandað ratleikskort þar sem merktir eru inn 27 staðir, vítt og breytt í bæjarlandinu.

 

Göngur í upplandinu eru einstaklega nærandi og róandi 

Í samstarfi við heilsubæinn Hafnarfjörð er hinn vinsæli Ratleikur Hafnarfjarðar nú hafinn í 24. sinn. Leikurinn gengur út á að þátttakendur finna 27 staði, sem merktir eru inn á vandað ratleikskort, vítt og breytt í bæjarlandinu. Þátttakendur hafa allt sumarið 2021 til að leita að þessum stöðum sem hafa að geyma áberandi ratleiksmerki. Sumir staðanna eru innanbæjar og önnur í upplandinu. Markmið með ratleik er m.a.  að fá fólk til að skynja og upplifa hversu dýrmætt og fagurt nærumhverfið er hér í Hafnarfirði. Ratleikskortin má nálgast frítt víða, m.a. í Fjarðarkaupum, í Bókasafni Hafnarfjarðar, í Ráðhúsi Hafnarfjarðar, á sundstöðum og á bensínstöðvum. Leikurinn stendur yfir til 20. september. 

Sjá frétt um Ratleik Hafnarfjarðar á vef Fjarðarfrétta 

Þemað í ár er eldgosið á Reykjanesskaganum

Þema ratleiksins í ár ætti ekki að koma á óvart, en það er eldgosið á Reykjanesskaganum og hraun og hraunmyndanir. Eru þátttakendur leiddir að fjölmörgum hraunum og þeim gefnar upplýsingar um m.a. aldur þeirra og nafn. Hönnunarhúsið ehf. gefur út leikinn í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og er það Guðni Gíslason sem leggur leikinn. Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur og leiðsögumaður, sá um að taka saman þá ýmsu fróðleikspunkta sem finna má á korti ratleiksins. Ómar hefur veitt ómetanlega aðstoð við gerð leiksins undanfarin ár en hann heldur úti fróðleikssíðunni Ferlir.is sem hefur að geyma gríðarlegan fróðleik um náttúru og mannvist á Reykjanesi og víðar.  

Kjörinn leikur fyrir alla fjölskylduna – ekki skilyrði að fara á alla staði 

Leikurinn er kjörin leið til samveru og skemmtunar fyrir einstaklinga og fjölskyldumeðlimi á öllum aldri og á sama tíma frábær leið til að kynnast betur þeirri miklu sögu, óspilltu og fjölbreyttu náttúru og dýralífi sem Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða. Það er ekki skilyrði að fara á alla staðina á kortinu, þótt reyndin sé sú síðustu ár að flestir þeir sem skila inn lausnum, hafa farið á alla 27. staðina. Leiknum skipt í þrjá flokka; Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en þeir sem skila inn 9 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar og þeir sem skila inn 18 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Göngugarpur Ratleiks Hafnarfjarðar. Þeir sem skila inn öllum 27 lausnunum geta svo hlotið sæmdarheitið Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar. Verða þrír í hverjum flokki dregnir út á uppskeruhátíð leiksins í haust. 

Nánari upplýsingar og fróðleik má finna á vefsíðu ratleiksins ratleikur.fjardarfrettir.is en þar má einnig finna tvær útgáfur af Litla Ratleik Hafnarfjarðar, til að taka þátt í honum þarf hinsvegar ekkert kort.

Ábendingagátt