Te & Kaffi er fyrirtæki ársins 2024 í Hafnarfirði

Fréttir

Markaðsstofa Hafnarfjarðar hefur valið Te & Kaffi fyrirtæki ársins í Hafnarfirði. Guðmund­ur Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri Te & kaffi, tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gær, þann 9. apríl. Fimm voru tilnefnd og þau fjögur sem fengu tilnefningu voru Betri Stofan, H-Berg, Litla hönnunarbúðin og Sorgarmiðstöð.

Fyrirtæki ársins gerir Hafnarfjörð að betri!

Markaðsstofa Hafnarfjarðar hefur valið Te & Kaffi fyrirtæki ársins í Hafnarfirði. Guðmund­ur Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri Te & kaffi, tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í gær, þann 9. apríl. Markaðsstofan heiðrar fyrirtæki sem hafa skarað fram úr á árinu fyrir að efla atvinnulíf í Hafnarfirði og fyrir að hafa tekið þátt í að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi með starfsemi sinni og athöfnum.

Jóhannes Egilsson, varaformaður stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar, flutti ávarp og bauð gesti velkomna. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðaræjar, afhenti viðurkenninguna. Hinn óviðjafnanlegi Frímann Gunnarsson tróð upp og fór með gamanmál að eigin hætti.

Te & Kaffi mótað kaffihúsamenningu landsmanna

Te & Kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1984. Vörumerkið hefur þróast með sífelldum nýjungum og vöruþróun auk þess sem fyrirtækið rekur fjölda kaffihúsa. Te & Kaffi leggur mikið upp úr umhverfismálum með sjálfbærni að leiðarljósi.

„Strangt gæðaeftirlit er á öllu vinnsluferli kaffibaunanna og val á réttu hráefni. Markmið fyrirtækisins er að bjóða viðskiptavinum upp á besta kaffi sem völ er á, á sem umhverfisvænastan hátt, “ segir í tilkynningu Markaðsstofunnar. Undanfarin ár hafi fyrirtækið haldið loftlagsbókhald og fyrirtækið brugðist vel við því sem betur megi fara til að stuðla að aukinni sjálfbærni, meðal annars með umhverfisvænni orkugjafa og niðurbrjótanlegum umbúðum.

Fimm hafnfirsk fyrirtæki tilnefnd í ár

Fimm fyrirtæki voru tilnefnd að þessu sinni. Auk Te & Kaffi voru það Betri Stofan, H-Berg, Litla hönnunarbúðin og Sorgarmiðstöð. Hvatningarverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar voru fyrst afhent árið 2017 en þau verðlaun eru núna nefnd Fyrirtæki ársins í Hafnarfirði.

Hlutverk og tilgangur Markaðsstofu Hafnarfjarðar er að efla samstarf atvinnulífs, bæjarfélagsins og annarra sem vilja stuðla að uppbyggingu innan Hafnarfjarðar með það að leiðarljósi að bæta ímynd Hafnarfjarðar og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Hlutverk markaðstofunnar er einnig að standa að fræðslu, efla tengslanet fyrirtækja í bænum og samstarfi þeirra á milli.

Fjöldi þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að markaðsstofunni er sífellt að aukast og er starfsemin í sífelldri þróun til að koma á móts við óskir og þarfir fyrirtækja í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarbær óskar starfsfólki Te & Kaffi innilega til hamingju sem og allra hinna tilnefndu fyrirtækjanna.

Ábendingagátt