Tekjuviðmið frístundastyrks 67 ára og eldri hækkað

Fréttir

Tekjuviðmið frístundastyrks 67 og eldri hækkar um mánaðamótin til samræmis við viðmið um niðurfellingu fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega. Breytingin var samþykkt á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Frístundastyrkur fyrir 67+

Samþykkt hefur verið að tekjuviðmið frístundastyrks 67 og eldri hækki til samræmis við viðmið um niðurfellingu fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega. Með þessum breytingum er tryggt að þeir sem njóta 100% afsláttar af fasteignaskatti eigi jafnframt rétt á frístundastyrk. Það stuðlar að virkni og bættri lífsgæðum eldri borgara. Bæjarstjórn samþykkti hækkunina samhljóða á síðasta fundi sínum.

Breytingin er mikilvæg og hefur það markmið að hvetja eldri Hafnfirðinga til þátttöku í heilsueflandi íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig að efla almennt heilbrigði og hreysti aldurshópsins. Farið var að tillögum frá Öldungaráði.

Stefnt að fjölbreyttri þjónustu

Stefnan er sú að bærinn bjóði fjölbreytta þjónustu fyrir eldra fólk í bænum. Meðal annars hafa verið stigin skref í auknu þjónustuframboði, samanber Janusarverkefni, sundleikfimi og Hress líkamsrækt.

Frístundastyrkurinn má nota víða. Hann nær til félaga og viðurkenndra aðila sem eru með skipulagða kennslu/þjálfun. Fjárhæð greiðslna er 4.000 kr. fyrir hvern mánuð á meðan iðkun stendur eða allt að 48.000 kr. í heildargreiðslu á árinu.

Frístundagreiðslur eru tekjutengdar og taka mið af tekjum einstaklinga og hjóna samkvæmt síðasta staðfesta skattframtali.

Tekjuviðmiðið uppfært árlega

Frístundagreiðslur eru veittar til þeirra sem eru með tekjur undir tekjuviðmiðum niðurfellingar fasteignarskatts af eigin íbúð elli- og örorkulífeyrisþega miðað við 100% hlutfall. Tekjuviðmið eru birt í gjaldskrá á heimasíðu Hafnarfjarðar og eru uppfærð árlega í janúar til samræmis við launavísitölu viðmiðunarárs.

Árgjald/félagsgjald er greitt í einu lagi gegn framvísun greiðslukvittunar og þarf að berast fyrir árslok þess árs sem gjaldið nær yfir. Berist greiðslukvittanir ekki fyrir tilskyldan tíma fellur greiðslan niður.

Ábendingagátt