Tennisíþróttin fær byr undir vængi

Fréttir

Nýtt tennisfélag í Hafnarfirði, TFH, var stofnað í vetur. Íþróttin er í vexti í bænum og nýlega fengu útivellir á Víðistaðatúni andlitsupplyftingu.

Nýtt tennisfélag hefur verið stofnað í Hafnarfirði, TFH, en áður var starfsemi tennisins í bænum innan tennisdeildar BH. Í félaginu eru skráðir 140 iðkendur, þar af 114
fullorðnir og 26 börn. 

Lítil sem engin aðstaða hefur verið fyrir tennisiðkendur
í Hafnarfirði síðastliðin ár og hafa því iðkendur leitað inn í Kópavog eða
Reykjavík til að stunda tennis. Þó hefur verið boðið upp á skólatennis fyrir
6-9 ára börn við góðar undirtektir, en um ræðir tennisæfingar á sama tíma og
börnin eru í frístund. Síðasta skólaár fór sú starfsemi þó eingöngu fram í
Hraunvallaskóla en fyrirhugað er að bjóða upp á tennisæfingar í fleiri skólum
næsta skólaár.

Endurbætur á tennisvelli á Víðistaðatúni 

TFH stefnir ekki
eingöngu að því að fjölga vetraræfingum í skólatennis næsta haust heldur
einnig að því að koma útivöllunum á Víðistaðatúni í gott stand svo hægt verði
að bjóða hafnfirskum börnum aftur í sumartennisskóla innan síns sveitafélags og
að bjóða öllu áhugasömu fólki að spila tennis á löglegum tennisvöllum. 

Félagið fagnar því að búið sé að skipta um tennisnet og mála nýjar línur á vellina
núna í sumar en stærsta verkefni næsta árs er að laga undirlagið á tennisvöllunum,
sem og lagfæra grindverkið í kring og koma upp læstum skúr svo einhver aðstaða
sé til að geyma tennisbúnað.

Nýtt tennisfélag í Hafnarfirði – TFH

Í vetur var ákveðið að fara á fullt í að
stofna nýtt tennisfélag í Hafnarfirði, TFH, og á sama tíma fór tennisdeild innan BH úr félaginu eftir langt og gott samstarf. Þannig er starfsemi
tennisins í Hafnarfirði orðin að sjálfstæðu tennisfélagi eins og í öðrum
sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. 

Stofnfundur Tennisfélags Hafnarfjarðar var haldinn þann 28. maí síðastliðinn en hátt í 30
manns létu sjá sig og sýndu félaginu áhuga. Júlíana Jónsdóttir var kosin sem
formaður og Andri Jónsson sem varaformaður. Hjörtur Þór Grjetarsson, Hanna Jóna
Skúladóttir og Hafsteinn Dan Kristjánsson voru kosin í stjórn félagsins
ásamt tveimur varastjórnarmönnum, þeim Steinunni Garðarsdóttur og Heiðu Björg
Gústafsdóttur. 

Ábendingagátt