Terra plokkar og skorar á önnur fyrirtæki í Hafnarfirði

Fréttir

Starfsfólk Terra í Hafnarfirði ætlar að plokka á Degi umhverfisins, laugardaginn 25. apríl. Terra skorar á önnur fyrirtæki í Hafnarfirði að slást í hópinn og hreinsa til fyrir sumarið. Plokktímabilið 2020 er formlega hafið!   

Starfsfólk Terra í Hafnarfirði ætlar að plokka á Degi umhverfisins, laugardaginn 25. apríl. Terra skorar á önnur fyrirtæki í Hafnarfirði að slást í hópinn og hreinsa til fyrir sumarið.  

Óflokkað plokk í gáma frá Terra

Terra, SORPA og verslunarkeðjan Krónan munu í sameiningu bjóða íbúum í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu að koma með óflokkað plokk í gáma frá Terra sem staðsettir eru á hjá eftirfarandi Krónuverslunum á höfuðborgarsvæðinu:

  • Krónan í Mosfellsbæ, Háholti 13-15.
  • Krónan á Granda, Fiskislóð 15-21 í Reykjavík.
  • Krónan á Höfða, í Húsgagnahöllinni í Reykjavík.
  • Krónan í Kórahverfi, Kópavogi.
  • Krónan í Flatahrauni, Hafnarfirði 

Sýna þakklæti í verki með táknrænum hætti

Í ár vilja plokkarar landsins beina plokktöngum sínum að heilbrigðisstofnunum landsins, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og dvalar- og hjúkrunarheimilum, og sýna þannig þakklæti sitt í verki, enda hefur starfsfólk og stjórnendur þessara heilbrigðisstofnana verið undir miklu álagi svo vikum skiptir. Svavar Hávarðsson, einn af öflugustu plokkurum landsins, bar þessa hugmynd upp innan hópsins og var henni afar vel tekið. Hugmyndin er táknræn. Það er ekki svo að í kringum heilbrigðisstofnanir landsins sé rusl að finna í meiri mæli en annars staðar, en með því að taka þátt í plokki í kringum heilbrigðisstofnanir getum við, fólkið í landinu, látið þakklæti okkar í ljós með þessum táknræna hætti. En það verður plokkað á fleiri stöðum og hægt að stofna viðburði á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi og hvetja fólk til þátttöku bæði heima í hverfi og við næstu stóru umferðarmannvirki allt eftir tíma og getu.

PLOKKTRIXIN Í BÓKINNI

  1. Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskylduna til að taka þátt.
  2. Stofna viðburð í eigin hverfi eða tengja sig inn á stofnaðan viðburð.
  3. Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng. Hægt er að nálgast poka í þjónustuveri og þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar miðvikudaginn 22. apríl og föstudaginn 24. apríl.  
  4. Klæða sig eftir aðstæðum.
  5. Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
  6. Senda mynd og upplýsingar í gegnum ábendingagátt Hafnarfjarðarbæjar eða fara með plokkið/ruslið í gám Terra við Krónuna á Flatahrauni.
  7. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.

Samkomubann er alveg upplagt til að taka á því í plokkinu.

Plokktímabilið 2020 er formlega hafið! 

Ábendingagátt