Brúin

Í leik- og grunnskólum eru sérstök brúarteymi þar sem unnið er í sameiningu til að auka farsæld barna og fjölskyldna þeirra.

Brúin

Brúin er verklag sem eflir stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum sem glíma við áskoranir. Áherslan er að veita stigskipta þjónustu eins fljótt og hægt er. Á fyrsta stigi eru vægari úrræði virkjuð, á hærri stigum eru markvissari úrræði virkjuð og þverfagleg samvinna sett í gang.

Hvað er brúarteymi?

Í brúarteymum situr fagfólk á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og barnamálasviði og mennta- og lýðheilsusvið. Brúarteymið kortleggur stöðu barnsins og leitar sameiginlegra lausna til að styðja við barnið og fjölskyldu. Nám, hegðun, þroski og líðan barnsins eru rædd með samþykki foreldra og hentug úrræði virkjuð til að bregðast sem fyrst við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins. Í leikskólum eru samráðsteymi virkjuð, í grunnskólum nemendaverndaráð.

Dæmi um úrræði:

  • Sérkennsla.
  • Einstaklingsstuðningur (liðveisla).
  • Stuðningsfjölskylda.
  • Uppeldisráðgjöf og foreldrafræðsla.
  • Ráðgjöf hjá kennslufulltrúa fjölmenningar.
  • Klókir litlir krakkar námskeið fyrir foreldra barna með kvíðaröskun.
  • PMTO (Parent Management Training–Oregon aðferð) meðferð fyrir börn með hegðunarvanda. Í boði er einstaklingsmeðferð, hópmeðferð og foreldranámskeið.
  • Barnavernd.

Fá aðstoð frá brúarteymi

Ef barninu þínu vantar aðstoð eru brúarteymi til staðar fyrir ykkur. Best er að tala við umsjónarkennara barnsins í grunnskóla eða deildarstjórann í leikskóla.

Brúin aðstoðar til dæmis við:

  • Vanda með einbeitingu og frammistöðu í námi.
  • Erfiðleika í hegðun.
  • Frávik í þroska.
  • Vanlíðan.
  • Óviðunandi heimilisaðstæður.

Reynslan af Brúnni

Hafnarfjörður byrjaði að þróa Brúna haustið 2018. Skólaárið  2020–2021 voru allir leik- og grunnskólar orðnir þátttakendur í þróun verklagsins. Með Brúnni var nálguninni breytt gagnvart þjónustu við börn og fjölskyldur hjá bænum. Nú starfa bæði fjölskyldu- og barnamálasvið og mennta- og lýðheilsusvið Hafnarfjarðar eftir verklagi Brúarinnar auk þess sem þjónusta við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og BUGL er samþætt. Þetta tryggir heildrænni nálgun á stuðning við börn og fjölskyldur.

Viðhorfskannanir hafa sýnt að starfsfólk er ánægt með skýrt verklag Brúarinnar og finnst að markviss samvinna og þjónusta frá Fjölskyldu- og barnamálasviði og Mennta- og lýðheilsusviði væri að nýtast vel. Foreldrar telja stuðninginn sem þau fengu í gegnum brúarteymin gagnast fjölskyldunni vel.