Þetta er samvinna. Alla leið!

Fréttir

Samkvæmt greiningarvinnu fyrir Hafnarfjarðarbæ hefur umferð á vef bæjarins stóraukist á fyrri hluta þessa árs, sem og lestur frétta og tilkynninga. Þá hefur ný ábendingagátt fengið afar góðar viðtökur og almennum fyrirspurnum fjölgað mikið. Aukin áhersla hefur verið á stafræn mál í þjónustu til að gera hana aðgengilegri og gagnvirkari fyrir hinn almenna íbúa. 

Samkvæmt greiningarvinnu fyrir Hafnarfjarðarbæ hefur umferð á vef bæjarins stóraukist á fyrri hluta þessa árs, sem og lestur frétta og tilkynninga. Þá hefur ný ábendingagátt fengið afar góðar viðtökur og almennum fyrirspurnum fjölgað mikið. Aukin áhersla hefur verið á stafræn mál í þjónustu til að gera hana aðgengilegri og gagnvirkari fyrir hinn almenna íbúa. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi  við Garðar Rafn Eyjólfsson, sem hefur verið vefstjóri bæjarins undanfarin 12 ár.

„Hér hefur átt sér stað algjör umbylting í rafrænni þjónustu. Ég er búinn að starfa hjá bænum í 12 ár og undanfarið ár er það skemmtilegasta frá upphafi. Það er svo margt nýtt að gerast sem færir okkur meira til nútímans,“ segir Garðar Rafn, en mikil þarfagreining hefur verið unnin með vef Hafnarfjarðarbæjar út frá skýrslu Capacent um hvað mætti bæta svo að hægt sé að leysa sem flest mál í fyrstu snertingu með stafrænum hætti eða í þjónustuveri. „Íbúar bæjarins, notendur vefsins, eiga að geta fengið eins mikla mögulega þjónustu þegar þeim hentar við tölvuna heima hjá sér eða í símanum. Þetta er í takti við þá stefnu sem ýmis stór fyrirtæki hafa sett sér og fólk er farið að þekkja.“ 

Gardar2Í ábendingagáttinni er hægt að hlaða inn mynd og merkja við nákvæma staðsetningu, sem auðveldar vinnslu mála hjá bænum. Mynd/skjáskot

Ábending með staðsetningu og mynd

Í þessu sambandi bendir Garðar Rafn á að ábendingagáttin sé heldur betur farin að sanna gildi sitt. „Við fengum lengi vel ábendingar mestmegnis með tölvupósti eða gegnum ólíkar síður á Facebook þar sem bærinn var merktur í innleggjum eða þá með Facebook skilaboðum. Umferð á þessum Facebook síðum er mikil og utanumhaldið að reynast erfitt. Í dag bendum við íbúum að skrá ábendingu beint í ábendingagáttina sem fer þá strax í formlegt ferli og svörun hjá viðkomandi sviði. Þar er líka hægt að skrá staðsetningu og deila mynd þegar það á við og veita þannig allar nauðsynlegar upplýsingar strax við fyrstu snertingu. Þetta hefur stórbætt ferlið og þjónustuna og við erum hæstánægð með viðbrögðin, enda fáum við ábendingar úr öllum áttum um allt mögulegt. Á 3 mánuðum reyndust ábendingar rétt tæplega 400.

Gardar3Fleiri nota snjalltæki til að fletta upp á efni á síðu Hafnarfjarðarbæjar. Mynd/OBÞ

Fleiri og yngri lesa fréttir – í snjalltækjum

Garðar Rafn segir að vefur Hafnarfjarðarbæjar hafi á einu ári þróast í öflugan miðil og lögð sé áhersla á virka upplýsingagjöf og tilkynningar um starfsemi bæjarins og samstarfsverkefni. „Umferðin á vefnum hefur stóraukist, þar af lestur frétta og tilkynninga um 49%. Það vekur sérstaka athygli að meðalaldur þeirra sem lesa fréttirnar er mun lægri og þær eru einnig meira lesnar í snjalltækjum en áður. Facebook síðan okkar er mjög lifandi. Við erum einnig með Instagram síðu og höfum aðeins gefið í þar síðan í sumar,“ segir Garðar Rafn.

Gardar4Síðan Betri Hafnarfjörður. Mynd/skjáskot

Þá taki vefur bæjarins á allri starfsemi sveitarfélagsins og áhersla þar lögð á einfalt og gott aðgengi að upplýsingum m.a. með öflugri leitarvél. „Það er mikil vinna í gangi með Mínar síður – íbúagátt – og við viljum bæta efni, aðgengi og endurgjöf þar. Nýlega settum við svo í loftið einfalda uppflettingu á næstu dagsetningu á losun sorps og miðum við að bæta sambærilegri uppflettingu við fyrir snjómokstur nú í vetur. Svo eru nýju reiknivélarnar okkar að reynast vinsælar en með þeim erum við að gera gjaldskrá sveitarfélagsins aðgengilegri og skiljanlegri”. Þegar eru komnar í loftið reiknivélar fyrir leikskólagjöld, frístundaheimili og fasteignagjöld.

Gardar5Enska útgáfan af vef bæjarins kom í loftið fyrir skömmu. Mynd/skjáskot

Aðrir vefir einnig í vinnslu

Ensk útgáfa af vef Hafnarfjarðarbæjar er komin í loftið og Garðar Rafn segir umferð um nýja vefinn strax orðna töluverða og að innan skamms verði hægt að þýða efni á enskum vef beint yfir á fjölmörg önnur tungumál. Framkvæmdin sé liður í því mikilvæga verkefni að íbúar af erlendum uppruna finni strax að þeir séu hluti af samfélaginu. Unnið sé í að koma íbúagáttinni yfir á ensku auk þess sem ráðningarvefur Hafnarfjarðarbæjar sé í þýðingu. Tiltölulega lítil verkefni en afar mikilvæg í stóra samhenginu þannig að íbúar sem ekki hafa íslensku að móðurmáli upplifi samfellu í þjónustunni og sjái líka möguleikana. „Við erum svo að klára að forrita vef fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar og erum að hefja vinnu við glænýjan vef bókasafnsins í samstarfi við íbúa bæjarins og starfsfólk safnsins. Spennandi vinna sem leggur ákveðinn grunn að framtíðarhugsun í vefmálum sveitarfélagsins“. Spurður um hvaða eiginleika góður vefstjóri þurfi að hafa segir hann að lykilatriði sé að sinna starfinu með opnum huga og vera góður hlustandi. „Þetta er samvinna, alla leið!“

Viðtal við Garðar birtist í Hafnfirðingi 10. október 2020. 

Ábendingagátt