Þétting byggðar – skýrsla

Fréttir

Faglegur starfshópur hefur síðustu mánuði unnið að mati möguleika sem kunna að vera til staðar í hverfum Hafnarfjarðar og í jöðrum byggðar, til þéttingar byggðar.  Niðurstöður liggja fyrir.

Starfshópur var skipaður af skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar í lok árs 2014 til að meta möguleika sem kunna að vera til staðar í hverfum Hafnarfjarðar og í jöðrum byggðar, til þéttingar byggðar. Hópurinn hefur nú lokið störfum og afhent skýrslu til skipulags- og byggingarráðs, skýrslu sem lögð verður fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar í næstu viku.

 Vinna starfshóps byggir á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025, svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2040 og tölfræðigögnum sem notuð voru við gerð svæðisskipulagsins ásamt fyrirliggjandi umferðarspá og umferðartalningum í Hafnarfirði. Skýrslan felur meðal annars í sér greiningu á samsetningu Hafnarfjarðarbæjar með áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Þróun og samsetning byggðar
  • Íbúar og störf
  • Samgöngur
  • Miðbær Hafnarfjarðar
  • Náttúra og útivist

Í skýrslunni er m.a. að finna helstu áskoranir, stefnu um fjölbreytta uppbyggingarmöguleika innan þéttbýlismarka næstu tuttugu og fimm árin, mismunandi sviðsmyndir sem sýna megináherslur í uppbyggingu auk tillagna að þéttingar- og þróunarsvæðum. Við vinnuna vöknuðu margar spurningar sem leitast verður við að svara næstu vikur og mánuði:

  • Hvernig bær vill Hafnarfjörður verða?  
  • Hversu hröð á uppbyggingin að vera?
  • Á að styrkja sögulegan og menningarlegan arf sem Hafnarfjarðarbær byggir á?
  • Á að efla uppbyggingu nýrra hverfa til suðurs á jaðri höfuðborgarsvæðisins?

Þessi greinargerð varpar ljósi á helstu kosti og galla tveggja mismunandi leiða til framtíðaruppbyggingar. Greinargerðin getur því orðið grunnur að forsögn fyrir endurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðar.

Við hvetjum íbúa alla til að kynna sér efni skýrslunnar og taka virkan þátt í kynningu og umræðu um niðurstöðurnar í Hafnarborg í mars. Skýrslu má finna HÉR

Dagskrá verður auglýst síðar.

Ábendingagátt