Þín eigin heimahátíð á 17. júní

Fréttir

Þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, er haldinn hátíðlegur á óhefðbundinn hátt um allt land í ár vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Dagskráin var gott sem fullmótuð þegar COVID-19 skall á í mars og þurfti undirbúningsnefndin í Hafnarfirði að fylgjast vel með tilmælum almannavarna og sníða þessa árlegu hátíð eftir samkomutakmörkunum. 

Þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, er haldinn hátíðlegur á óhefðbundinn hátt um allt land í ár vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Dagskráin var gott sem fullmótuð þegar COVID-19 skall á í mars og þurfti undirbúningsnefndin í Hafnarfirði að fylgjast vel með tilmælum almannavarna og sníða þessa árlegu hátíð eftir samkomutakmörkunum. Þó verður ýmis óvænt skemmtun og hvatning í gangi, s.s. „Hlustað á hljóðið“ og „Grillað í garðinum“ og eru íbúar m.a. hvattir til að taka sig saman í sínum hverfum og búa til sína eigin hátíð, bjóða gestum heim og njóta alls sem nærumhverfið, bærinn og upplöndin hafa upp á að bjóða.

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Sunnu Magnúsdóttur, verkefnastjóra 17. júní hátíðarinnar í ár. 

FlaggaIGardinumHeima

Bæjarbúar eru hvattir til að flagga á sinn hátt, hvort sem það er í stangir, glugga, blómapotta eða hvar sem þeim dettur í hug. Mynd/OBÞ

Daginn fyrir þjóðhátíðardaginn, eða 16. júní, verður honum „þjófstartað“ með bílabíói við Ásvallalaug, þar sem tvær bíósýningar verða sýndar á risatjöldum. Um verður að ræða Víti í Vestmannaeyjum kl. 18 og Með allt á hreinu kl. 20. Á sama tíma verður Reykjavík Streetfood með tíu vagna á Ásvöllum. „Sjálfur 17. júní hefst svo á hefðbundinn hátt með því að flaggað verður á helstu stöðum í bænum. Við hvetjum íbúa Hafnarfjarðar til að flagga líka og/eða setja fána út í glugga, í blómapotta á pallinum eða í innkeyrslunni. Það verður mögulega hægt að hvetja til fánatalningar eins og bangsatalningin sem heppnaðist svo vel í vor,“ segir Sunna.

17Juni2020Ýmsar hátíðlegar áherslur á 17. júní saman komnar á einni mynd. Mynd/ÓMS

Hver verður fjallkonan í þinni heimahátíð?

Vegna samkomutakmarkana munu fastir liðir eins og fjallkonan og fleiri ekki stíga á stokk á Thorsplani og flytja ljóð, leik og söng. Sunna segir að í staðinn til hátíðarbrigða verði notuð hugtökin Grillað í garðinum og Hlustað á hljóðið. „Grillað í garðinum gengur út á að hvetja íbúa Hafnarfjarðar til að taka sig saman í görðum, á pöllum og í íbúahverfum sínum og gera minni hátíðir og gleðjast saman. Hlustaðu á hljóðið verður svo tvíþætt; annars vegar mun Ísbíllinn keyra langflestar götur í bænum og gefa börnum ís. Hins vegar „Hafnarfjarðarlestina“, svipað og Kóklestin, bíl sem mun aka um bæinn og spila viðeigandi hátíðartónlist.“ Þá verði íbúar einnig hvattir til að nýta sameiginlegu samkomusvæðin við Hvaleyrarvatn, í Hellisgerði, á Víðistaðatúni og Thorsplani að vild. „Það verða heit grill allan daginn á Víðistaðatúni og við Hvaleyrarvatn þar sem fólk getur komið og grillað.“

Hvaleyrarvatn_1592251644539Náttúruperlan Hvaleyrarvatn er vinsælt til að dvelja við og busla í. Mynd/OBÞ

Óvæntar ótímasettar og óstaðsettar uppákomur

Hefðbundin 17. júní dagskrá í Hafnarfirði var gott sem klár þegar COVID-19 skall á. „Við urðum að sníða okkur stakk eftir vexti og í takti við afléttingar á samkomubanni. Við byrjuðum að funda í janúar en svo breyttist allt,“ segir Sunna. Einhverra óvæntra uppákoma megi vænta um bæinn í viðbót, en þær verði ekki tímasettar eða staðsettar fyrirfram. Svo verði öll menningarhús opin og sundlaugarnar líka, sem sé óvanalegt á þessum degi. Þá muni Lúðrasveit Hafnarfjarðar einnig láta sjá sig í bænum. „Það býr mjög skapandi og skemmtilegt fólk í Hafnarfirði og ég veit að við náum í sameiningu að gera þennan dag eftirminnilegan á öðruvísi en fjölbreyttan hátt. Þetta verður nokkurs konar þjóðhátíðardagur í bakgarðinum heima í Hafnarfirði og við hlökkum mikið til,“ segir Sunna að lokum.

Viðtal við Sunnu birtist í Hafnfirðingi 15. júní 2020.

Sjá „dagskrá“ og hvatningu á þjóðhátíðardegi 2020  

Ábendingagátt